Atvinnuslökkvilið

Nám fyrir slökkviliðsmenn að aðalstarfi skiptist í eftirfarandi þrjá hluta auk endurmenntunar. Skulu þeir a.m.k. hafa lokið námi skv. 1. og 2. tölulið.

Fornám: Nýliði skal ljúka 80 kennslustunda fornámi áður en hann hefur störf sem atvinnuslökkviliðsmaður. Fornámið er í umsjón og á ábyrgð viðkomandi slökkviliðs en Brunamálaskólinn lætur slökkviliði í hendur gögn vegna fornáms svo sem námslýsingu, kennsluefni og próf. Að loknu námi skal nemandinn vera hæfur til starfa sem byrjandi í atvinnuslökkviliði.

Atvinnuslökkviliðsmaður: Námið fyrir atvinnuslökkviliðsmenn er 540 kennslustundir. Þátttakendur skulu hafa lokið fornámi fyrir slökkviliðsmenn og miðað skal við að þeir hafi starfað í atvinnuslökkviliði í sex mánuði. Námi skal lokið innan þriggja ára frá upphafi starfs. Að loknu námi skal nemandinn vera hæfur til almennra slökkvistarfa, reykköfunar, björgunarstarfa og viðbragða við mengunar- og eiturefnaslysum.

Stjórnandi: Nám fyrir stjórnendur innan slökkviliðanna er 120 kennslustundir. Þátttakendur skulu hafa lokið námi sem atvinnuslökkviliðsmenn. Námið er ætlað þeim sem vinna við stjórnun innan atvinnuslökkviliða, svo sem slökkviliðsstjórar og vaktstjórar. Að loknu námi skal nemandi vera hæfur til stjórnunar m.a. á útkallsstað og í starfsstöð, annast skýrslugerð, kennslu og þjálfun og hafa þekkingu á lögum er varða starfssvið hans. Nám fyrir slökkviliðsstjóra skal auk framangreinds fela í sér að lokið hafi verið við nám sem eldvarnaeftirlitsmaður I og II.