Brunavarnir

Mannvirkjastofnun hefur eftirlit með framkvæmd laga nr. 75/2000 um brunavarnir auk laga nr. 40/2015 um gróðurelda og þá þætti um brunavarnir sem koma fram í öðrum lögum sem stofnunin hefur eftirlit með s.s. lög um mannvirki, lög um byggingarvörur og reglugerðir settar á grunni þeirra. Þessi starfsemi fer fram á eldvarnasviði.

Eldvarnasvið hefur einkum eftirlit með brunavarnaákvæðum byggingarreglugerðar og þar er unnið að samræmingu á afgreiðslu leyfisveitenda á kröfum til brunavarna og samræmingu á eldvarnaeftirliti um land allt í samráði við viðkomandi stjórnvöld. Þá er á sviðinu unnið að vottun á brunaeiginleikum byggingarefna og útgáfu á starfsleyfum þjónustuaðila auk þess sem haldið er utan um gagnagrunna á sviðinu.

Eldvarnasvið fer einnig með yfirumsjón með slökkvistarfi sveitarfélaga í þeim tilgangi að tryggja virkt slökkvistarf á landinu öllu. Stofnunin sér um eftirlit með því að slökkvilið séu þannig skipulögð, búin tækjabúnaði og mönnuð, með mannskap sem hafi nægjanlega menntun og þjálfun til að sinna hlutverki sínu, að það ráði við þau verkefni sem því eru falin með lögum um brunavarnir. Þetta er m.a. gert með úttektum á slökkviliðum, vatnsveitum og búnaði slökkviliða.

Brunamálaskólinn, sem sér um nám fyrir slökkviliðsmenn og eldvarnaeftirlitsmenn er starfræktur innan sviðsins.

Á sviðinu er einnig unnið með sveitarfélögunum við gerð brunavarnaáætlana en Mannvirkjastofnun samþykkir þær samkvæmt 13. gr. laga um brunavarnir.