Viðurkenningar á sviði brunavarna

Til þess að bjóða þjónustu á sviði brunavarna þarf almennt sértæk námskeið sem varða þær brunavarnir sem um ræðir, þannig má til dæmis nefna námskeið vegna brunaviðvörunarkerfa, slökkvikerfa og nám í brunaþéttingum. Einnig er í reglugerð nr. 200/1994 um eigið eftirlit eigenda og forráðamanna með brunavörnum í atvinnuhúsnæði, fjallað um aðila sem geti tekið að sér að halda brunaæfingar í atvinnuhúsnæði sem hafa skulu viðurkenningu til að bjóða slíka þjónustu. Þá viðurkenningu hafa nokkrir aðilar hlotið sem allir hafa lokið námi sem slökkviliðsmenn og eldvarnaeftirlitsmenn og sýnt fram á mikla reynslu af forvörnum og slökkvistarfi.

Undir flipanum Starfsleyfi þjónustuaðila brunavarna er að finna lista yfir þá aðila sem eru með starfsleyfi til að sinna þjónustu við brunavarnir eins og þær eru skilgreindar í reglugerð nr. 1067/2011 um þjónustuaðila brunavarna.

Umsögn um brunahæfni vöru (aðrar en byggingarvörur) og staðfesting á nothæfi byggingarvöru 

Hægt er að sækja um umsögn Mannvirkjastofnunar á brunahæfni vöru í gegnum Mínar síður á vef Mannvirkjastofnunar. Þar er einnig hægt að fá staðfestingu á nothæfi byggingarvöru aðrar en byggingarvörur. Hér fyrir neðan eru helstu lagaákvæði sem gilda um þessi mál.

Lagaákvæði um viðurkenningar í lögum um brunavarnir nr. 75/2000:

25. gr. 
Kröfur til brunaöryggis vöru.

Hver sá sem framleiðir, flytur inn eða selur vöru sem haft getur áhrif á öryggi mannvirkja og fólks gagnvart eldi skal ábyrgjast að varan fullnægi öryggiskröfum á Evrópska efnahagssvæðinu í samræmi við fyrirsjáanlega og eðlilega notkun vörunnar.

Hafi slík vara ekki fullgilda viðurkenningu á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 1. mgr., skal sá sem framleiðir, flytur inn eða selur vöruna leita viðurkenningar hjá Mannvirkjastofnun áður en varan er sett á markað hér á landi. Kostnaður vegna beiðni um viðurkenningu skal borinn af þeim sem óskar viðurkenningar.

Mannvirkjastofnun sker úr um ágreining vegna notkunarsviðs vöru.

Telji Mannvirkjastofnun að vara fullnægi ekki kröfum skv. 1. mgr. er stofnuninni heimilt að banna sölu eða afhendingu vörunnar og krefjast þess að hún verði afturkölluð og tekin af markaði. Um málsmeðferð Mannvirkjastofnunar og réttarfarsúrræði fer samkvæmt ákvæðum VIII. kafla laga um mannvirki.

Lagaákvæði um staðfestingar á nothæfi byggingarvöru í lögum um byggingarvörur nr. 114/2014.

12. gr. Krafa um staðfestingu óháðs aðila.

Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans skal afla staðfestingar Mannvirkjastofnunar eða annars aðila sem ráðherra viðurkennir á nothæfi byggingarvöru með tilliti til brunaþols og brunaeiginleika byggingarvöru, sbr. 1. og 2. tölul. 2. mgr. 10. gr.

Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans skal afla staðfestingar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands eða annars aðila sem ráðherra viðurkennir á nothæfi byggingarvöru með tilliti til þeirra eiginleika og þátta sem falla undir 2. mgr. 10. gr., að undanskildum 1. og 2. tölul., og 4. mgr. 10. gr.

Sá sem óskar staðfestingar samkvæmt þessari grein skal greiða þann kostnað sem af henni hlýst. Gjald fyrir staðfestingu skal ákveðið í gjaldskrá viðkomandi stofnunar. Upphæð gjaldsins skal taka mið af kostnaði við þjónustu og einstök verkefni og skal byggð á rekstraráætlun þar sem rökstudd eru þau atriði sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldið má ekki vera hærra en sá kostnaður.

Við staðfestingu, þ.m.t. ákvörðun um frekari gerðarprófun skv. 2. mgr. 11. gr., skal höfð hliðsjón af kröfum sem settar eru fram í ákvörðunum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um hlutverk framleiðanda og tilkynnts aðila við staðfestingu á samræmi við kröfur, en ef ekki liggja fyrir samþykktir frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um einstaka vöruflokka skal höfð hliðsjón af ákvörðunum um hliðstæðar vörur.

Til baka