Listi yfir iðnmeistara

Samkvæmt 32.  gr.  laga um mannvirki  nr. 160/2010 ber Mannvirkjastofnun að halda ská yfir löggilda iðnmeistara og skal hún varðveitt í gagnasafni stofnunarinnar. Þá ber iðnmeisturum að  tilkynna stofnuninni um gæðastjórnunarkerfi sitt til skráningar í gagnasafn stofnunarinnar. 

Mannvirkjastofnun sér einnig um löggildingu rafverktaka samkvæmt lögum nr. 146/1996 um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga. Upplýsingar um það má nálgast hér á vef Mannvirkjastofnunar.

Á lista hér fyrir neðan  eru þeir aðilar sem hafa:

  1. Löggildingu iðnmeistara skv. lögum um mannvirki nr. 160/2010, skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 og byggingarlögum nr. 54/1978.
  2. Skráð gæðastjórnunarkerfi samkvæmt 32. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010
  3. *Staðbundin réttindi iðnmeistara skv. eldri löggjöf.

Vakin er athygli á því að löggiltir rafverktakar öðlast löggildingu samkvæmt lögum nr. 146/1996 um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga. Rafverktaki / rafvirkjameistari sem hefur löggildingu Mannvirkjastofnunar, Brunamálastofnunar, Neytendastofu eða Löggildingarstofu samkvæmt eldri lagaákvæðum, þarf ekki að sækja um löggildingu samkvæmt lögum um mannvirki. Þetta þýðir hins vegar ekki að löggilding samkvæmt lögum um mannvirki komi í stað löggildingar á grundvelli laga um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga enda gera þau lög ráð fyrir að uppfylla þurfi mun strangari skilyrði til að hljóta slíka löggildingu. Lista yfir löggilta rafverktaka er hægt að nálgast hér á vef Mannvirkjastofnunar.

Frá 1. janúar 2015 geta aðeins þeir  iðnmeistarar sem hafa skráð gæðastjórnunarkerfi borið ábyrgð á einstökum verkþáttum í mannvirkjagerð. Rafverktaki / rafvirkjameistari sem hefur fengið B- löggildingu rafverktaka og er með viðurkennt öryggisstjórnunarkerfi  þarf ekki að sækja um skráningu gæðastjórnunarkerfis.

*Athygli skal vakin á því að listinn er ekki tæmandi skrá yfir iðnmeistara þar sem ekki liggja fyrir hjá Mannvirkjastofnun upplýsingar um alla þá sem hafa staðbundin réttindi. Í þeim tilfellum sem merkt er við dálkinn „Staðbundin réttindi“  verða byggingarfulltrúar að kanna í hvaða umdæmi viðkomandi hefur réttindi til að starfa.