Málþing um loftlagsmál og sjálfbærni í byggingariðnaði 2017

Miðvikudagurinn 23. febrúar 2017.

Haldið var málþing um loftslagsmál og sjálfbærni í byggingariðnaði þann 23. febrúar sl. á Hótel Hilton Nordica. Málþingið var samstarfsverkefni Mannvirkjastofnunar, Byggingavettvangsins, Vistbyggðarráðs og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Ráðherra umhverfis- og auðlindamála, Björt Ólafsdóttir, flutti opnunarávarp. Fjölmörg áhugaverð erindi voru flutt um tækifæri og áskoranir sem felast í sjálfbærum byggingariðnaði og áhrifum hans á loftslagsbreytingar. Aðalræðumaður var þýski arkitektinn Martin Haas sem er einnig varaformaður þýska vistbyggðarráðsins. Málþingsstjóri var Hannes Frímann Sigurðsson. Mikill áhugi var á málþinginu og sóttu það rúmlega 100 gestir. Hér á eftir er stutt samantekt allra erinda.

 
 
 
 
 
 
 
 

Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra.

Í opnunarávarpi sínu sagði Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, að loftslagsbreytingar af mannavöldum eru mesti vandi sem mannkynið stendur frammi fyrir og að við verðum að snúa þróuninni við. Hún vitnaði í skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ um stöðu Íslands í loftslagsmálum og minnti á þátt byggingariðnaðarins í því samhengi. Björt minnti á að vanda þyrfti til verka í dag þar sem erfitt og óhagkvæmt er að breyta eftir á, bæði m.t.t. kostnaðar og umhverfisáhrifa. Hið opinbera hefur innleitt vistvæn innkaup í útboðum sínum en einnig hannað og byggt samkvæmt umhverfisvottunarkerfinu BREEAM. Hún talaði um að í sífelldri fólksfjölgun samhliða vaxandi ferðamannastraumi felist mikil áskorun í byggingariðnaði. Ávarpinu lauk með hvatningu um að við þurfum að setja framtíðina í forgang, efla nýsköpun, þróa nýja tækni og aðferðir, huga að efnisvali og betri nýtingu, svo að við taki tímar sjálfbærni í stað sóunar. 

 

 

Paradigm Change? New Architecture for 2050 (Breytingar heildarviðmiða? Nýr arkitektúr fyrir 2050)

Martin Haas, arkitekt á eigin stofu haas.cook.zemmrich – STUDIO 2050 í Þýskalandi, varaformaður þýska vistbyggðarráðsins (DGNB) og gestaprófessor við University of Pennsylvania

Heimur okkar er að ganga í gegnum breytingar. Við þurfum að endurhugsa félagsleg gildi, hvernig við lifum í sambýli í borgum okkar og hvernig við upplifum arkitektúr. Allt okkar manngerða umhverfi er undir þar sem það mótar hegðun okkar, venjur og félagslega þróun. Þess vegna er mikilvægt að greina og þekkja blæbrigðamun mannlegrar tilveru, þýðingu mismunandi lífshátta og nýta þá þekkingu til að þróa nýjan arkitektúr. Sem arkitektar berum við ábyrgð á því að finna leiðir til þess að gera sjálfbæran lífsstíl eftirsóknarverðan.

Martin fjallaði um sjálfbærni 2.0 og hver væru næstu skref? Hann fór lauslega yfir það sem áunnist hefur í Þýskalandi og sýndi nokkur dæmi um framsæknar sjálfbærar byggingar. Stofa Martin hefur t.d. unnið að sædýrasafni í Stralsund, höfuðstöðvum Unilever í Hamborg, samkeppni um hönnun Guggenheim safnsins í Helsinki og höfuðstöðvum Alnatura í Darmstadt. Martin hvatti áhugasama til að kynna sér innihald skýrslu frá Stanford háskóla sem fjallar um sjálfbærni í byggingariðnaði.

Hann talaði um að við þyrftum að endurskilgreina lykilhugtök eins og „form follows function“ sem ætti ekki lengur við að öllu leyti. Vestræn samfélög hafa breyst mikið á undanförnum áratugum og er búist við áframhaldandi stórtækum breytingum. Lífaldur hefur hækkað sem lengir hvert æviskeið en breytir jafnframt þeirri kaflaskiptingu sem þekkst hefur í dæmigerðu lífshlaupi einstaklings í iðnþróuðu ríki, þ.e. æska, menntun, starfsframi og eftirlaunaaldur. Framtíðar lífsstíllinn skiptist í fleiri æviskeið að mati Martin og setti hann fram áhugaverða skiptingu með stigunum „childhood“, „youth“, „post-adolescent“, „rush hour“, „anything but retirement“ og „age of wisdom“. Við viljum færast nær náttúrunni og lifa heilbrigðara lífi, arkitektar þurfa að bregðast við þessum lífsstílsbreytingum. Mikilvægt er að huga fyrst að fólki og svo uppbyggingu innviða. Svarið er ekki aðeins orkunýtni eða sólarsellur á þökum, verkefnið er mun umfangsmeira, hugsunarháttur þarf að breytast, leggja þarf áherslu á fólk og lífvænleg borgarrými. 

 
 
 
 
 
 
 
 

Kolefnisjafnaðar byggingar á Íslandi? Kolefnishlutlaus / orkuhlutlaus / orkujöfnuð

Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir, verkfræðingur og framkvæmdastjóri Vistbyggðarráðs

Umhverfisbyltingu þarf til að ná Parísarmarkmiðum um 2°C, Þórhildur sagði samninginn mjög jákvæðan en að þörf væri á aðgerðum. Byggingar nota bæði efni og orku, 20-25% af CO2e losun í heiminum er vegna efnisnotkunar frá byggingum. Þórhildur kynnti Torcellini, orkumerkingar og orkueftirlit með byggingum. Mjög metnaðargjörn markmið voru sett fram í evrópsku byggingarreglugerðinni 2010 um að allar byggingar yrðu næstum orkuhlutlausar fyrir 2021 en að mati Þórhildar eru langtímamarkmið nauðsynleg til að móta hvernig standast skuli kröfur. Hún kynnti eiginleika kolefnis-/orkuhlutlausra bygginga og sagði umhverfisvænt efnisval vera lykilatriði í að kolefnisjafna byggingar yfir líftíma þeirra. Draga þarf úr óþarfa orkusóun, nota endurnýtt, endurunninn og endingargóð efni, hreinar timburvörur, „græna“ steypu o.s.frv. Hún lagði sérstaka áherslu á kosti endurnýtingar byggingarefna þar sem það krefðist ekki orkufrekrar endurvinnslu þeirra heldur væri hægt að nýta efni áfram án mikillar fyrirhafnar og lágmarka þannig umhverfisáhrif. 

 

 
 
 
 
 
 
 

Hvaða þýðingu hefur Parísarsamkomulagið fyrir byggingariðnaðinn?

Hugi Ólafsson, skrifstofustjóri skrifstofu hafs, vatns og loftslags hjá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Hugi fór yfir alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum, þátt mannvirkja í losun gróðurhúsalofttegunda, afleiðingar og tækifæri. Hann lagði áherslu á að rannsóknir vantaði fyrir íslenskan byggingariðnað. Fjallað var um óvenjulega stöðu Íslands þar sem hér er hæsta hlutfall endurnýjanlegrar orku í heiminum. Miklar breytingar munu verða á loftslagsmálum en í því felast mikil tækifæri, ekki bara vesen, kostnaður og leiðindi. Til dæmis má minnka losun frá vélum og tækjum með notkun annarra orkugjafa, bæta einangrun og orkunýtni í húsum, velja byggingarefni með lág kolefnisspor, bæta innviði fyrir loftslagsvænt samfélag við hönnun húsa með tenglum fyrir rafbíla, hjólageymslum, flokkun úrgangs o.fl. Tækifærin eru jafnframt fyrir atvinnulífið í formi nýsköpunar, tæknilausna, endurnýjanlegrar orku og grænnar ímyndar fyrirtækja, atvinnugreina og Íslands. Hugi sagði að það þyrfti að bregðast við strax, reyna að draga úr áhrifunum og taka tillit til breytinganna því þær munu kosta að lokum. 

Sjálfbært skipulag

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, skipulagsfræðingur og forstjóri Skipulagsstofnunar

Ásdís talaði um sjálfbærnimarkmiðin 17 sem gefin eru út af Sameinuðu þjóðunum og tengsl þeirra við byggingariðnað en þau eiga það sameiginlegt að verið er að beina tilmælum til okkar allra og tryggja velsæld fyrir alla. Hún hvatti þá sem vinna við skipulag byggðar að kynna sér New Urban Agenda, landsskipulagsstefnu Skipulagsstofnunar og rit Guðmundar Hannessonar sem var víðsýnn, framsýnn og tók tillit til sjálfbærrar þróunar í sínum skrifum. Ásdís talaði um hagkvæma landnýtingu, gæði hins byggða umhverfis og hvernig skipulagsfræðin geta haft áhrif á hvatningu til útiveru, hreyfingar, matjurtaræktunar, náttúruverndar, flokkun úrgangs o.s.frv.

Perlufestin okkar – Auknir uppbyggingarmöguleikar meðfram Borgarlínu

Hrafnkell Á. Proppé, svæðisskipulagsstjóri SSH (Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu)

Hrafnkell kynnti nýjar áherslur í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins um byltingu í almenningssamgöngum og nýja sýn á þróun byggðar. Með dreifingu byggðar jókst umferð mikið en markmið verkefnisins er að a.m.k. 66% byggðar verði á kjörnum og samgöngumiðuðum þróunarsvæðum ásamt því að hlutfall almenningssamgangna verði a.m.k. 12%. Hrafnkell fór yfir eiginleika og kosti samgöngukerfisins og sýndi mögulega leið. Erindinu lauk með þeirri ályktun að með markvissri uppbyggingu meðfram Borgarlínu verður auðvelt að tvöfalda íbúafjölda höfuðborgarsvæðisins innan vaxtamarka og tryggja grunn fyrir hagkvæmar almenningssamgöngur.

Fjárhagslegir hvatar og grænir skattar

Tryggvi Felixson, auðlindahagfræðingur og ráðgjafi hjá Norðurlandaráði

Tryggvi fjallaði um hvort við gætum notað hagræna hvata til að stuðla að sjálfbærum byggingariðnaði. Hann sagði sjálfbærni vera lærdómsferli, þ.e. við ætlum að gera betur í dag en í gær. Stýritæki stjórnvalda til meiri sjálfbærni eru þó nokkur og það hefur sýnt sig að slíkt hefur virkað sérstaklega vel þegar aðrir valkostir eru fyrir hendi. Tryggvi fór yfir ýmsa fjárhagslega hvata s.s. beina styrki, niðurgreiðslur, lægri lóðagjöld, hagkvæmari lán, lægri fasteigna- og/eða tryggingagjöld, lægri VSK á vistvænum byggingavörum (og vistvænum arkitektum) og sérstök gjöld ef orkunotkun fer yfir tiltekin viðmiðunarmörk. Að lokum setti Tryggvi fram nokkar raunhæfar hugmyndir um hvað er mögulegt í þessum málefnum.

Um sérstöðu Íslands varðandi loftslagsmál og sjálfbærni í byggingariðnaði

Ólafur H. Wallevik, prófessor við Háskólann í Reykjavík og forstöðumaður grunnrannsókna við NMÍ

Ólafur talaði um sérstöðu Íslands varðandi loftslagsmál og að Evrópa legði því næst alla áherslu á orkunotkun í rekstri bygginga. Kolefnisspor á Íslandi væri líklega mest frá byggingarefnum og að  einblína þurfi á að nota minna magn án þess að láta það bitna á gæðum. Þá væri skortur á byggingarannsóknum og lífsferilsgreiningum hérlendis. Hann fjallaði um umhverfisvæna steinsteypu, t.d. mætti nota kísilryk, flugösku og annað í stað hluta sements. Vistvæni gengur líka út á minni sóun, minna magn, endingartíma, endurnýtingu, vistvænt efnisval o.s.frv.

Vistvæni og hönnun mannvirkja

Aðalheiður Atladóttir, arkitekt og formaður Arkitektafélags Íslands

Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ var hannaður hjá A2F arkitektum eftir aðferðafræði BIM (e. Building Information Modelling). Aðalheiður fjallaði um hönnunarferlið en byggingin hlaut BREEAM umhverfisvottun fyrir hönnun með einkunnina „very good“. Hún sagði að við hefðum ekki efni á að byggja eins og gert hefur verið hingað til þar sem byggingariðnaðurinn er ábyrgur fyrir 30-40% losun gróðurhúsalofttegunda. Vistvæn hönnun er samspil þriggja þátta: umhverfis, efnahags og samfélags. Aðalheiður fjallaði um ýmsar leiðir sem voru farnar við hönnun FMos svo sem útirými, opin kennslurými, gróðurþak, ómeðhöndlað lerki, hvernig sólarorka var nýtt í hitakerfi, loftdúkar sem endurvarpa dagsbirtu, led lýsing og koltvísýringsmæla í ofnakerfum fyrir sjálfvirka gluggaopnun.

Til baka