Nánari lýsing:

Ítarlegar reglur eru í 2.4. kafla byggingarreglugerðar um umsóknargögn og feril byggingarleyfisumsóknar. Nánari reglur um einstakar tegundir hönnunargagna eru síðan í 4.2-4.5 kafla reglugerðarinnar.

Svar:

Umsóknarferlið og leyfisveitingin vegna byggingarleyfis er tvískipt, annars vegar samþykkt byggingaráforma og hins vegar endanleg útgáfa byggingarleyfis.

Ef mannvirki er í samræmi við skipulagsáætlanir á svæðinu og fullnægjandi aðaluppdráttum og ýmsum öðrum gögnum hefur verið skilað þá samþykkir leyfisveitandi (oftast byggingarfulltrúi viðkomandi sveitarfélags) byggingaráformin. Ef vafi leikur á því hvort framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins þarf byggingarfulltrúi að leita umsagnar skipulagsfulltrúa áður en byggingaráform eru samþykkt. Ef ekki liggur fyrir deiliskipulag skal byggingarfulltrúi vísa leyfisumsókninni til skipulagsnefndar í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Samþykkt byggingaráforma veitir umsækjanda ekki rétt til að hefja framkvæmdir en hann getur hafist handa við gerð séruppdrátta. Samþykkt byggingaráforma falla úr gildi hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út innan tveggja ára frá samþykkt þeirra nema annar gildistími sé tilgreindur í samþykktinni. Endanlegt byggingarleyfi er gefið út þegar séruppdráttum hefur verið skilað til leyfisveitanda og hann yfirfarið þá. Einnig þarf að skila inn ýmsum öðrum gögnum s.s. ábyrgðaryfirlýsingu byggingarstjóra og iðnmeistara, yfirliti hönnunarstjóra um innra eftirlit við framkvæmd hönnunar og yfirliti um ábyrgðarsvið einstakra hönnuða.