Nánari lýsing:

Í 2.3. kafla byggingarreglugerðar kemur fram hvenær sækja þarf um byggingarleyfi.

Svar:

Almenna reglan er að sækja þarf um byggingarleyfi fyrir öllum nýjum mannvirkjum, viðbyggingum og breytingum t.d. á útliti, burðarkerfi og lagnakerfum. Ýmsar minniháttar framkvæmdir sem tilgreindar eru í 2.3.5. gr. reglugerðarinnar eru þó undanþegnar byggingarleyfi. Sækja þarf um leyfi til að rífa og flytja mannvirki.

Hugtakið mannvirki er skilgreint í 51. tölul. 1.2.1. gr. byggingarreglugerðar á eftirfarandi hátt:

„Hvers konar jarðföst, manngerð smíð, svo sem hús og aðrar byggingar eða skýli, virkjanir, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, fráveitu­mannvirki, umferðar- og göngubrýr í þéttbýli, stór skilti og togbrautir til fólksflutninga. Til mannvirkja teljast einnig tímabundnar og lausar byggingar sem ætlaðar eru til svefns eða dag­legrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, svo sem starfsmannabúðir og húsvagnar. Mannvirki á eða í hafi, vötnum og ám sem hafa fasta staðsetningu teljast einnig til mannvirkja samkvæmt reglugerð þessari.“

Mannvirki sem falla undir framangreinda skilgreiningu eru byggingarleyfisskyld með þeirri undantekningu þó að fráveitumannvirki og dreifi- og flutningskerfi hitaveitna, vatnsveitna, rafveitna og fjarskipta og breytingar á slíkum mannvirkjum eru sérstaklega undanþegin byggingarleyfi sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki, nr. 160/2010. Sækja þarf hins vegar um byggingarleyfi vegna bygginga sem tengdar eru fráveitumannvirkjum og dreifi- og flutningskerfum hitaveitna, vatnsveitna, rafveitna og fjarskipta, þ.m.t. fjarskiptamöstrum, tengivirkjum og móttökudiskum.

Sækja þarf um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun mannvirkis, t.d. ef atvinnuhúsnæði er breytt í íbúðarhúsnæði, íbúðarhúsnæði í gististað þar sem gestafjöldi er yfir 10 manns, verslunar- og skrifstofuhúsnæði í veitingastað o.s.frv. Oftast kallar slík breytt notkun á breytingar á húsnæðinu, t.d. varðandi eldvarnir. Þó einungis sé um breytta notkun að ræða en ekki breytingar á húsnæðinu sjálfu þarf eftir sem áður að sækja um byggingarleyfi. Byggingaryfirvöld fara þá yfir hvort hin breytta notkun samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu og meta hvort húsnæðið uppfyllir ákvæði gildandi byggingarreglugerðar vegna hinnar breyttu notkunar. 

Hér má nálgast tvo úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um byggingarleyfisskyldu:

63/2013 Leyfisskylda mannvirkis Sandskeið

50/2012 Láland