Nánari lýsing:

Mannvirkjastofnun ber að rannsaka slys og tjón á mannvirkjum, nánari lýsingu er að finna í byggingarreglugerð.

Svar:

Verði manntjón eða alvarleg hætta skapast vegna tjóns á mannvirki eða tjónið er til þess fallið að skapa hættu skal Mannvirkjastofnun rannsaka tjónið og orsakir þess, tilhögun byggingareftirlits og það hvernig að hönnun mannvirkis og byggingarframkvæmdum var staðið, sbr. 2.2.2. gr. byggingarreglugerðar  nr. 112/2012 og 54. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Einnig skal, ef við á, kanna hvernig staðið var að rekstri og viðhaldi. Sjá nánar í leiðbeiningum Mannvirkjastofnunar nr. 2.2.2.

Það er frumskilyrði fyrir rannsókn Mannvirkjastofnunar að tjón hafi orðið á mannvirki. Til viðbótar þarf síðan eitt af eftirfarandi skilyrðum að vera uppfyllt:

  1. Að manntjón hafi orðið eða

  2. alvarleg hætta hafi skapast eða

  3. tjónið var til þess fallið að skapa hættu.

Í 2. mgr. 2.2.2. gr byggingarreglugerðar er upptalning á tjónsatburðum sem byggingarfulltrúi skal tilkynna Mannvirkjastofnun um, enda hafi orðið tjón á mannvirki og framangreind skilyrði séu að öðru leyti uppfyllt:

  1. Alvarlegar fokskemmdir á mannvirkjum og hrun.

  2. Ef maður ferst eða slasast alvarlega og orsök slyssins má rekja til aðstæðna innan mannvirkis eða við það.

  3. Sig á mannvirkjum og sigskemmdir.

  4. Alvarleg brunaslys, s.s. vegna heitra byggingarhluta eða heits vatns.

  5. Alvarleg mengunarslys innan mannvirkja eða frá þeim ef rekja má slysið til þeirra þátta sem falla undir 2. mgr. 1.1.2. gr.

Eigandi mannvirkis sem verður fyrir tjóni sem uppfyllir ofangreind skilyrði skal tilkynna það til Mannvirkjastofnunar svo fljótt sem unnt er.

Mannvirkjastofnun getur hafið rannsókn að eigin frumkvæði sé vanrækt að tilkynna um tjón.

Um rannsóknir á tjóni vegna eldsvoða gilda ákvæði VII. kafla laga um brunavarnir.