Leiðbeiningar vegna brunarannsókna

Sérfræðingar Rafmagnsöryggissviðs Mannvirkjastofnunar veita lögregluembættum á öllu landinu aðstoð þegar þau telja sig þurfa á því að halda. Samt er mjög mikilvægt að áðurnefnd yfirvöld geri sér grein fyrir hvers eðlis orsök bruna er, áður en óskað er aðstoðar. Lögregluembættin geta einnig sett sig í samband við Mannvirkjastofnun eftir að þau hafa skoðað vettvang og metið í samráði við hana hvort þörf er á aðstoð.

Lögregla getur sent gögn til rannsóknar til Mannvirkjastofnunar. Það geta verið rafmagnstæki, lausataugar, fjöltengi eða hlutar úr raflögnum bygginga. Ljósmyndir af brunavettvangi eru einnig ómetanleg rannsóknargögn. Ljósmyndir hjálpa til að gefa heildarmynd af þeim gögnum sem eru til skoðunar. Mannvirkjastofnun rannsakar þau gögn sem henni berast og gefa viðkomandi aðila skýrslu.

Mjög mikilvægt er að Mannvirkjastofnun fái upplýsingar um bruna eða slys af völdum rafmagns frá lögregluyfirvöldum og öðrum. Haldið er utan um tölfræðiupplýsingar um fjölda bruna vegna rafmagns, þ.e. vegna rangrar notkunar rafmagnstækja, vegna bilunar í rafmagnstækjum og vegna bilunar í raflögnum. Einnig eru þessar upplýsingar flokkaðar eftir notkunarstað og tegund notkunar. Þá er Mannvirkjastofnun í norrænu samstarfi um upplýsingaöflun vegna bruna og slysa af völdum rafmagns.

Þegar Mannvirkjastofnun hefur móttekið rannsóknargögn eru þau skráð í sýnaskrá og geymd í eitt ár. Þeim er svo fargað eða komið til skila í samráði við viðkomandi lögregluyfirvöld, tryggingafélag eða eiganda tækis.

Mannvirkjastofnun vill benda á að sérfræðingar Mannvirkjastofnunar eru sérfræðingar í hvers konar rafmagnstækjum, lömpum, raflögnum bygginga og veitukerfum rafveitna, hvort sem er á háspennu, (yfir 1000V) eða lágspennu (undir 1000V). Þegar um bruna í bílum eða bátum er að ræða telur Mannvirkjastofnun sig vera komna út fyrir sitt sérfræðisvið. Bent er á Samgöngustofu eða Bílgreinasambandið.