Löggilding rafverktaka

Einungis rafverktakar sem löggiltir eru af Mannvirkjastofnun mega taka að sér rafverktöku og/eða annast viðgerðir á hvers konar rafföngum. Rafverktakar sem löggiltir eru af Mannvirkjastofnun starfa eftir skilgreindu öryggisstjórnunarkerfi til að tryggja eins og hægt er að starfsemi þeirra sé samkvæmt öryggiskröfum laga og reglugerða þannig að kröfum um gæði vinnu og öryggi búnaðar, sem gerðar eru í samræmi við lög og reglugerðir, sé fullnægt. Kröfum sem gerðar eru til öryggisstjórnunarkerfis rafverktaka er lýst í VLR 3.010, sjá einnig 8. gr. reglugerðar um raforkuvirki.

Löggildingarflokkar rafverktaka eru þrír:

A-löggilding

A- löggilding er löggilding til rafvirkjunarstarfa við háspennuvirki á almennum markaði. A-löggildingu skulu þeir hafa hlotið sem í eigin nafni annast rafverktöku við háspennuvirki á almennum markaði. Fyrirtæki sem starfa við háspennuvirki á almennum markaði skulu hafa í þjónustu sinni starfsmann, sem hlotið hefur A-löggildingu og þar með réttindi til að annast rafverktöku háspennuvirkja og ber jafnframt ábyrgð á vinnu við háspennuvirki sem unnin er í nafni fyrirtækisins.

B-löggilding

B- löggilding er löggilding til rafvirkjunarstarfa við lágspennuvirki og til viðgerða á hvers konar rafföngum á lágspennusviði á almennum markaði. B-löggildingu skulu þeir hafa hlotið sem í eigin nafni annast rafverktöku við lágspennuvirki og/eða annast viðgerðir á hverskonar rafföngum á lágspennusviði á almennum markaði. Fyrirtæki sem starfa við lágspennuvirki og/eða annast viðgerðir á hverskonar rafföngum á lágspennusviði á almennum markaði, skulu hafa í þjónustu sinni starfsmann, sem hlotið hefur B-löggildingu og þar með réttindi til að annast rafverktöku lágspennuvirkja og er jafnframt ábyrgur fyrir vinnu sem unnin er við lágspennuvirki í nafni fyrirtækisins.

C-löggilding

C-löggilding (CA;CB) er takmörkuð löggilding til rafvirkjunarstarfa við háspennuvirki, og/eða lágspennuvirki eða til viðgerða á hverskonar rafföngum á lágspennusviði, innan vébanda einstakra fyrirtækja eða stofnana sem ekki annast almenna rafverktöku eða viðgerðir á almennum markaði. C-löggildingu (CA;CB), sem eru takmörkuð löggilding, skulu þeir hafa hlotið sem starfa hjá fyrirtækjum eða stofnunum sem ekki annast rafverktöku á almennum markaði né annast viðgerðir á hverskonar rafföngum á almennum markaði og skal löggildingin aðeins ná til starfa/raffanga á athafnasvæði og/eða húsnæði viðkomandi fyrirtækja eða stofnana.

Til baka