Smávirkjanir

Í reglugerð um raforkuvirki (rur), gr. 5, er að finna þær kröfur sem gerðar eru til öryggisstjórnunarkerfis rafveitna, iðjuvera og einkarafstöðva. Í verklagsreglu Mannvirkjastofnunar VLR 3.031 Öryggisstjórnun rafveitna, iðjuvera og einkarafstöðva, er nánari lýsing á kröfunum. Hluti af öryggisstjórnunarkerfinu er eftirlit með eigin virkjum og í verklagsreglu VLR 3.032 Skoðun á eigin virkjum rafveitna, iðjuvera og einkarafstöðva, er að finna nánari lýsingu á kröfum um eftirlitið. Í verklagsreglu VLR 3.033 Skoðun á öryggisstjórnunarkerfi rafveitna, iðjuvera og einkarafstöðva, er að finna lýsingu á því hvernig skoðunum faggiltrar skoðunarstofu með öryggisstjórnunarkerfinu skal háttað.

Í verklýsingum Mannvirkjastofnunar VL 3.026 Upplýsingagjöf rafveitna vegna innri og ytri skoðana Raforkuvirkja og VL 3.027 Upplýsingaflæði milli rafveitu, skoðunarstofu og Mannvirkjastofnun er að finna lýsingu á lögbundinni upplýsingagjöf til Mannvirkjastofnunar. Í skoðunarreglum er að finna enn nákvæmari lýsingu á kröfum til öryggisstjórnunarkerfa undir eftirtöldum gátorðum:

Aðgangur að raforkuvirkjum

Ábyrgð stjórnenda

Ábyrgðarmaður

Eftirlitsferlar

Fyrirmæli til rafveitna

Hættu- og neyðarástand

Innri úttektir

Kunnáttumenn og þjálfun

Skjalastýring

Skrár og skýrslur

Skrár um virki

Úrvinnsla athugasemda og lagfæringar

Vinnuferlar

Ný rafveita, iðjuver og einkarafstöð þarf að fá viðurkenningu Mannvirkjastofnunar á öryggisstjórnunarkerfi sínu til þess að henni sé heimilt að tengjast raforkunetinu. Í verklýsingu VL 3.028 Setning rafveitu, staðfesting ábyrgðarmanns og viðurkenning á öryggisstjórnunarkerfi rafveitu er því lýst hvernig beri að standa að setningu nýrrar rafveitu, iðjuvers og einkarafstöðvar. Verklýsing VL 3.025 Leiðbeiningar um setningu smávirkjana, lýsir setningu smávirkjunar.

Mannvirkjastofnun er heimilt að takmarka kröfur til öryggisstjórnunarkerfa iðjuvera og einkarafstöðva. Ef uppfyllt er krafa um heildarskoðun háspennuhluta viðkomandi virkis á minnst 5 ára fresti má undanskilja ákvæði í töluliðum 3-6 í gr. 5.2 í rur, sem fjalla um eftirlit með eigin virkjum, úrvinnslu athugasemda og innri úttektir öryggisstjórnunarkerfisins. Þetta hefur Mannvirkjastofnun m.a. túlkað svo að einkarafstöðvum sé heimilt að hafa ábyrgðarmann sem er löggiltur rafverktaki og hefur öryggisstjórnunarkerfi sem taki til einkarafstöðvarinnar. Sama gildir fyrir smávirkjanir.