Hvað telst vera fullnægjandi truflunarskráning?

Greinargerð:

Tilgangur innra öryggisstjórnunarkerfis er að draga sem mest úr hættu og tjóni af virkjum og ennfremur truflunum á og af völdum starfrækslu þeirra. Til að þjóna þeim tilgangi er nauðsynlegt að upplýsingar um truflanir séu skráðar og aðgengilegar. Auðvelt þarf að vera að sjá upplýsingar um einstakar truflanir, meta afhendingargæði og greina bilanir með viðeigandi hætti.

Skv. reglum um skoðun raforkuvirkja, „Skrár um virki“ skal rafveita skrá og safna saman upplýsingum um rekstrartruflanir. Fram skal koma a.m.k. um hvers konar truflun var að ræða og hvenær truflun varð. Fram skal koma hver sá um lagfæringar og hvernig brugðist var við þeim.

Svar:

Truflunarskráning samkvæmt viðmiðunum samstarfshóps rafveitna og orkufyrirtækja um skráningu rekstrartruflana, „START“ telst fullnægja framangreindum kröfum.

Rafveitur sem ekki taka þátt í framangreindu samstarfi skulu leggja eftirfarandi til grundvallar:

Skrá skal truflanir þannig að fram komi um hvers konar truflun var að ræða, hvenær, hvar, hversu lengi hún stóð og hvernig var brugðist við.

Rafveitur skulu skilgreina truflun á eftirfarandi hátt:

„Rekstrartruflun er það ástand sem skapast við:

a) breytingu á framleiðslu eða flutningi raforku sem ekki hefur verið heimiluð af rekstraraðila kerfisins,

b) að eining er tekin úr rekstri við vegna vinnu við viðhald eða breytinga á kerfinu.”

Koma skal fram hvort truflun hafi verið fyrirvaralaus, vegna vinnu við viðhalds eða breytinga, hvort hún hafi gengið yfir án þess að til viðgerða hafi komið og hvort hún hafi leitt til skerðingar á afhendingu orku, og þá jafnframt hversu margir notendur urðu fyrir skerðingu. Ennfremur skal koma fram eins og við á hvaða eining hafi verið orsök truflunarinnar, þannig að rekja megi til skrár um virki.

Iðjuver og einkarafstöðvar skulu skrá bilanir í þeim virkjum sem öryggisstjórnunarkerfið nær til, þannig að rekja megi til skrár um virki. Fram skal koma hvenær, hversu lengi bilun stóð yfir og hvernig brugðist var við, ásamt ástæðu bilunar eftir því sem við á.