Skrár og virki

Hvaða viðmiðun gildir um mörk milli virkja, t.d. línu og stöðvar?

Svar:

Rafveita skal halda skrá um eigin virki. Koma skal fram í skránni hverrar tegundar virkið er, sbr. VLR 2, töflu 1. Þar sem unnt er að skilgreina umfang virkis með mismunandi hætti, t.d. í dreifilínum eða strengkerfum, er rafveitu heimilt að skilgreina þau eftir því sem best á við starfsemi hennar og viðhaldsfyrirkomulag. Miða skal við að tryggður sé rekjanleiki milli skráningar virkis og skoðana virkja.

Skipting dreifilínukerfis í einstök virki getur ýmist verið í aðallínur út frá stöð ásamt álmum, eða að hver einstök álma sé sérstakt virki í virkjaskrá. Lágspennudreifikerfi t.d. mætti skipta í virki eftir því hvaða dreifistöð það tilheyrir við venjulegan rekstur. Gæta ber þess að að fylgja sömu skiptingu í virki þegar virki eru skoðuð.

Ef rafveita hefur mótað sér reglu eða hefð um nákvæm skil á milli virkjategunda er henni heimilt að nota hana áfram og ber þá skoðunarstofu að taka mið af því. Að öðrum kosti er mælt með því að fylgja eftirfarandi skilgreiningu á virkjum:

Virkjun

Virkjun er heildstætt safn mannvirkja og búnaðar sem saman mynda starfræna heild eða einingu til þess að framleiða raforku úr vatnsafli, jarðvarma, vindorku eða úr öðrum frumorkugjafa, þó ekki varmaaflsstöðvar aðrar en jarðvarmastöðvar.

Til virkjunar telst allur búnaður frá orkugjafanum sjálfum til og með rafalaúttaks. Allur tengdur búnaður sem er eðlilegur hluti af safni mannvirkja og búnaðar sem saman myndar starfræna heild eða einingu til raforkuframleiðslu telst vera hluti virkjunarinnar. Það á við búnað svo sem stjórn– og liðabúnað, lagnir, lágspennubúnað sem er eðlilegur hluti virkjunarinnar, svo og búnað sem tengist orkuöflun.

Tengivirki, rofabúnaður, spennar og annar slíkur búnaður sem þjónar því hlutverki að tengja raforkuframleiðandi einingu við dreifikerfi  telst ekki hluti virkjunar.

Neysluveitur á virkjunarsvæði, svo sem verkstæðishús, starfsmannaaðstaða, skrifstofur og annað því um líkt sem ekki er hluti af starfrænni heild virkjunarinnar sem eining til raforkuframleiðslu, teljast ekki vera hluti hennar.

Vara- og varmaaflsstöð

Vara– og varmaaflsstöð er heildstætt safn mannvirkja og búnaðar sem saman mynda starfræna heild eða einingu til þess að framleiða raforku með brennslu eldsneytis.

Til vara– og varmaaflsstöðvar telst allur búnaður frá orkugjafanum sjálfum til og með rafalaúttaks. Allur tengdur búnaður sem er eðlilegur hluti af safni mannvirkja og búnaðar sem saman myndar starfræna heild eða einingu til raforkuframleiðslu telst vera hluti vara– og varmaaflsstöðvar. Það á við búnað svo sem stjórn – og liðabúnað, lagnir, lágspennubúnað sem er eðlilegur hluti virkjunarinnar, svo og búnað sem tengist orkuöflun.

Tengivirki, rofabúnaður, spennar og annar slíkur búnaður sem þjónar því hlutverki að tengja raforkuframleiðandi einingu við dreifikerfi  telst ekki hluti vara– og varmaaflsstöðvarinnar.

Neysluveitur í vara– og varmaaflsstöð, svo sem verkstæði, starfsmannaaðstaða, skrifstofur og annað því um líkt sem ekki er hluti af starfrænni heild vara– og varmaaflsstöðvarinnar sem eining til raforkuframleiðslu, teljast ekki vera hluti hennar.

Aðveitustöðvar og tengivirki

Aðveitustöð og tengivirki, nefnt hér á eftir einu nafni stöð, eru heildstæð söfn mannvirkja og búnaðar sem tengist háspennulínum og/eða virkjunum, og ekki gegnir því meginhlutverki að dreifa raforku af háspennukerfi inn á lágspennt dreifikerfi.

Til stöðvar telst allur búnaður frá rafalatein til og með klemmu í línu eða múffu á streng. Allur tengdur búnaður sem er eðlilegur hluti af safni mannvirkja og búnaðar sem saman myndar starfræna heild telst vera hluti stöðvarinnar. Það á við búnað svo sem stjórn– og liðabúnað, lagnir, lágspennubúnað sem er hluti af starfrænni heild stöðvarinnar og lágspennulagnir innan stöðvarveggs sem þjóna stöðvarnotkun.

Neysluveitur sem staðsettar eru innan veggja stöðvarinnar, svo sem verkstæði,  starfsmannaaðstaða, skrifstofur og annað því um líkt sem ekki er hluti af starfrænni heild stöðvarinnar, teljast ekki vera hluti hennar.

Dreifistöðvar

Dreifistöð er heildstætt safn mannvirkja og búnaðar sem saman mynda starfræna heild eða einingu sem hefur það meginhlutverk að dreifa raforku af háspennukerfi inn á lágspennt dreifikerfi.

Til dreifistöðvar telst allur búnaður frá og með klemmu í línu eða múffu á streng, að skinnu á lágspennuvafi dreifispennis. Skinnan sjálf telst ekki hluti dreifistöðvar. Rofa– og varbúnaður og annar búnaður á útgangandi hlið skinnu telst ekki vera hluti af dreifistöðinni. Allur tengdur búnaður sem er eðlilegur hluti af safni mannvirkja og búnaðar sem saman myndar starfræna heild telst vera hluti dreifistöðvarinnar. Það á við búnað svo sem stjórn– og liðabúnað, lagnir, lágspennubúnað, sem er hluti af starfrænni heild dreifistöðvarinnar og lágspennulagnir innan stöðvarveggs sem þjóna stöðvarnotkun.

Neysluveitur sem staðsettar eru innan veggja dreifistöðvarinnar, svo sem verkstæðishús, starfsmannaaðstaða, skrifstofur og annað því um líkt sem ekki er hluti af starfrænni heild dreifistöðvarinnar, teljast ekki vera hluti hennar.

Lágspennudreifikerfi

Lágspennudreifikerfi nær frá skinnu á lágspennuvafi dreifispennis að raflögn notanda. Skinnan sjálf telst hluti lágspennudreifikerfis.

Háspennulínur

Háspennulína nær frá klemmu innan aðveitustöðvar, tengivirkis eða dreifistöðvar, að klemmu innan tengdrar aðveitustöðvar, tengivirkis eða dreifistöðvar.

Háspennustrengur

Háspennustrengur nær frá múffu innan aðveitustöðvar, tengivirkis eða dreifistöðvar, að klemmu innan tengdrar aðveitustöðvar, tengivirkis eða dreifistöðvar.