Hvernig á að leggja og tengja kerfi fortengdra strengja („gesis“ og „instabus“ kerfi)?

Nánari lýsing:

Er í lagi að leggja kerfi fortengdra strengja svokölluð “gesis-kerfi” eða “instabus-kerfi” á sama hátt og um lausataugar væri að ræða? Hvernig ber að ganga frá tengistykkjum kerfisins?

Svar:

Tilkoma fortengdra strengja með kló og taugatengli, stundum kallað „gesis-kerfi“ eða „instabus-kerfi“, breytir í engu gildandi reglum um strengjalagnir eða lausataugar, sbr. reglugerð um raforkuvirki (rur) og ÍST 200:2006.

Leggja skal þessa fortengdu strengi, eins og aðra, eftir viðurkenndum lagnaleiðum, s.s. strengstigum, eða festa með öðrum viðurkenndum hætti. Þá skal það sérstaklega áréttað að þessir strengir mega ekki liggja lausir eða upprúllaðir, t.d. ofan við kerfisloft, frekar en aðrir strengir.

Þar sem um er að ræða styttri vegalengdir, t.d. frá strengstiga í lampa eða á milli lampa, mega þessir strengir þó liggja lausir enda sé þá farið eftir ákvæðum gildandi reglna (rur og skoðunarreglur) um lausataugar varðandi frágang, lengd o.þ.h.

Samtengingar og greiningar skulu gerðar í þar til ætluðum tengidósum (tengistykkjum) og skulu tengistykkin festast eftir reglum sem gilda um tengidósir.