Má undir einhverjum kringumstæðum sleppa bilunarstraumsrofa í íbúðarhúsnæði og sambærilegu húsnæði?

Svar:

Gr. 11.2 í rur gerir kröfu um bilunarstraumsrofa í íbúðum, skólum, dagheimilum, hótelum, gististöðum og opinberum byggingum.

Ekki er nauðsynlegt að kvíslar í fyrrgreindu húsnæði, t.d. frá aðaltöflu í fjölbýli til einstakra íbúða, séu á bilunarstraumsrofa, sé þess gætt að engin úttök séu á kvíslunum og að bilunarstraumsrofi sé settur fyrir lagnir „notendamegin“, t.d. í töflum einstakra íbúða.

Sé slíkt nauðsynlegt, t.d. vegna öryggissjónarmiða, mega „sérstök“ rafkerfi í fyrrgreindu húsnæði sem leikmenn umgangast alla jafna ekki vera utan við bilunarstraumsrofa. Slíkar lagnir skulu vera á sérstökum greinum/kvíslum og þær lagðar þannig að leikmenn umgangist þær og rafbúnað þeim tengdum að jafnaði ekki og að ekki sé hætta á „víxlun“ við almenna raflögn viðkomandi byggingar. Tenglar skulu ekki vera í slíkum lögnum og öðrum mögulegum úttökum, s.s. tengidósum, skal koma þannig fyrir að ekki sé hætta á „víxlun“ við almenna raflögn viðkomandi byggingar.