Birgðasali og söluaðili

Almennar skyldur

Samkvæmt lögum nr. 72/1194 innleidd af tilskipun 2010/30/ESB ber birgðasölum og söluaðilum orkutengdra vara að uppfylla kröfur um orkumerkingar. Kröfurnar ná til vara sem eru settar á markað innan Evrópska efnahagssvæðisins. 

 • Birgðasali og söluaðili skulu láta neytendum í té upplýsingar um orkunotkun, orkunýtni, hávaða og annað er varðar rekstur þeirra vara sem eru seldar eða leigðar með beinum eða óbeinum hætti með fjarsölu eða netsölu og eru jafnframt tilgreindar í reglugerð settri á grundvelli laga nr. 72/1994. Upplýsingar þessar skulu vera á íslensku og þær skal samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð vera að finna á merkimiðum, sérstökum vöruupplýsingablöðum eða veggspjöldum. Upplýsingar eru aðeins veittar að því er varðar innbyggðar eða uppsettar vörur þegar þess er krafist í viðkomandi reglugerð. 
 • Birgðasala og söluaðila er skylt að vekja athygli neytenda á fyrrgreindum upplýsingum.
 • Feli auglýsing í sér orku- eða verðupplýsingar skal jafnframt birta tilvísun í orkunýtniflokk vörunnar ef varan sem um ræðir tengist orkunotkun og er tilgreind í reglugerð settri á grundvelli laga nr. 72/1994.
 • Allt tæknilegt kynningarefni sem varðar vörur sem tengjast orkunotkun og lýsir sérstökum tæknilegum kennistærðum vöru, nánar tiltekið tæknileiðbeiningar og kynningarrit framleiðenda, hvort sem er á prenti eða rafrænu formi, skal látið endanlegum notendum í té ásamt nauðsynlegum upplýsingum um orkunotkun eða tilvísun í orkunýtniflokk vörunnar.
 • Birgðasali skal taka saman tæknileg gögn sem leggja má til grundvallar við mat á upplýsingum þeim sem greint er frá á merkingum og vöruupplýsingablaði og skal birgðasali hafa þessi gögn til reiðu vegna skoðunar í fimm ár frá því að varan var síðast framleidd.
 • Birgðasali ber ábyrgð á því að upplýsingar á merkimiðanum og vöruupplýsingablöðum, sem hann lætur í té séu réttar.
 • Óheimilar eru merkingar sem samrýmast hvorki ákvæðum laga né reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra.
 • Birgðasalar og söluaðilar bera ábyrgð á því að sýna merkimiða á tilhlýðilegan hátt þannig að þeir eru sýnilegir og læsilegir og að vöruupplýsingablaðið sé í kynningarriti um vöruna eða öðrum skjölum sem fylgja vörunni þegar hún er seld endanlegum notendum.

Tæknileg gögn

Tæknileg gögn skulu hafa að geyma: 

 1. Almenna vörulýsingu. 
 2. Niðurstöður útreikninga varðandi hönnun ef við á. 
 3. Prófunarskýrslur þegar þær eru til, þar með taldar skýrslur um prófanir sem tilnefndir aðilar hafa framkvæmt í samræmi við aðra löggjöf.
 4. Ofangreindar upplýsingar um svipaðar gerðir vöru ef tölulegar niðurstöður miðast við þær. 
 5. Lýsing á mælingum og könnunum á hávaða.

Birgðasali skal hafa þessi gögn til reiðu vegna skoðunar í fimm ár frá því að varan var síðast framleidd. 

Ábyrgð birgðasala og seljanda

• Birgðasali ber ábyrgð á því að upplýsingar á merkimiðum og vöruupplýsingablöðum, sem hann lætur í té, séu réttar. 
• Óheimilar eru merkingar sem samrýmast hvorki ákvæðum laga né reglugerða.
• Birgðasali og söluaðili bera ábyrgð á því að sýna merkimiða á tilhlýðilegan hátt þannig að þeir séu sýnilegir og læsilegir og að vöruupplýsingablaðið sé í kynningarriti um vöruna eða öðrum skjölum sem fylgja vörunni þegar hún er seld endanlegum notendum. 

Orkumerkingar á netinu

Samkvæmt reglugerðum er skylda að hafa orkumerkimiða og vöruupplýsingablað sýnileg á öllum nýjum vörum og í þeim tilvikum sem vara frá því fyrir 2015 fær nýja gerðarmerkingu. Það er á ábyrgð birgðasala að orkumerkingar og vöruupplýsingablað séu séu rétt.

Söluaðili ber ábyrgð á því að upplýsa neytendur um orkumerkingar vara. Þar af leiðandi skal orkumerking vöru og vöruupplýsingar birtast á vefsíðu söluaðila.  

Að því er varðar merkimiðann og vöruupplýsingablaðið, sem á að birta á Netinu, ættu birgjar hverrar tegundar orkutengdrar vöru að láta seljendum í té rafræna útgáfu af merkimiðanum og upplýsingablaðinu, t.d. með því að veita aðgang að þeim á vefsetri þaðan sem seljendur geta halað þeim niður.

Orkumerkimiði og vöruupplýsingablað skulu vera aðgengileg áður en kaup fara fram. Vanti annað hvort þeirra stenst vefverslunin ekki settar kröfur.

Sjá nánar yfirlit yfir vörur sem þurfa að hafa orkumerkingar í vefverslun.

Hvaða kröfur eru gerðar til orkumerkinga á netinu?

Orkumerkinguna og upplýsingablaðið geta m.a. verið sýnd með faldaðri mynd. Rafræna orkumerkingin verður að hafa sama útlit og innihalda sömu upplýsingar og orkumerkingin sem er sýnd á vörunum í verslun. Upplýsingablaðið verður einnig að innihalda sömu upplýsingar og er í verslun.

Til baka