Um MVS

Mannvirkjastofnun starfar skv. lögum nr. 160/2010. Stofnunin skal tryggja samræmingu á byggingar- og eldvarnaeftirliti og starfsemi slökkviliða í samráði við viðkomandi stjórnvöld og hafa yfirumsjón með rafmagnsöryggismálum. Helstu verkefni Mannvirkjastofnunar eru:

 1. að annast gerð leiðbeininga, verklagsreglna og skoðunarhandbóka á fagsviði stofnunarinnar í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og aðra hagsmunaaðila,

 2. að bera ábyrgð á markaðseftirliti með byggingarvörum,

 3. að annast aðgengismál,

 4. að hafa eftirlit með vörnum gegn hættu og tjóni af raforkuvirkjum, neysluveitum og rafföngum og truflunum af þeirra völdum,

 5. að annast markaðseftirlit raffanga, 

 6. að annast skoðanir á raforkuvirkjum og neysluveitum, háspenntum og lágspenntum,

 7. að annast skoðanir á öryggisstjórnunarkerfum rafveitna og rafverktaka,

 8. að löggilda rafverktaka m.t.t. krafna vegna rafmagnsöryggis,

 9. að gefa út starfsleyfi til handa skoðunarstofum á rafmagnssviði og hafa eftirlit með starfsemi þeirra,

 10. að annast skráningu og rannsóknir á slysum og tjóni af völdum rafmagns,

 11. að starfrækja rafrænt gagnasafn um mannvirki og mannvirkjagerð um land allt,

 12. að annast kynningu og fræðslu fyrir almenning og hagsmunaaðila,

 13. að gefa út byggingarleyfi og annast eftirlit með framkvæmdum,

 14. að standa fyrir námskeiðum til réttinda fyrir hönnuði og byggingarstjóra og veita hönnuðum, iðnmeisturum og slökkviliðsmönnum löggildingu,

 15. að bera ábyrgð á starfrækslu Brunamálaskóla fyrir slökkviliðsmenn, þ.m.t. slökkviliðsstjóra og eldvarnaeftirlitsmenn,

 16. að gefa út starfsleyfi til handa byggingarstjórum og skoðunarstofum sem starfa samkvæmt lögum þessum og hafa eftirlit með starfsemi þeirra,

 17. að gefa út starfsleyfi til handa þjónustu- og eftirlitsaðilum brunavarna og samþykkja brunavarnaáætlanir sveitarfélaga samkvæmt ákvæðum laga um brunavarnir,

 18. að annast og stuðla að rannsóknum á sviði brunavarna, mannvirkjamála og manngerðs umhverfis í samvinnu við hagsmunaaðila og annast og stuðla að útgáfu upplýsinga um þau mál,

 19. að annast eldvarnaeftirlit vegna mannvirkja innan efnahagslögsögu og landgrunnsmarka sem eru fyrirhuguð eða tilkomin vegna rannsókna og vinnslu vetniskola,

 20. að taka þátt í starfi Staðlaráðs Íslands um gerð íslenskra og evrópskra staðla á sviði mannvirkjamála og rafmagnsöryggis og tilnefna aðila til þátttöku í starfi Evrópusamtaka um tæknisamþykki (EOTA),

 21. að eiga samstarf við hliðstæðar stofnanir í nágrannalöndunum og á alþjóðavettvangi,

 22. að vera ráðuneytinu og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar um mannvirkja- og rafmagnsöryggismál og veita umsögn um álitamál á því sviði,

 23. önnur verkefni sem ráðherra felur stofnuninni sérstaklega.