15.03 2011

Tvö alvarleg dómsmál sem snerta slökkvilið í nágrannalöndum okkar

Í erlendum fjölmiðlum má í ársbyrjun 2011 finna umfjöllun um tvö alvarleg dómsmál sem snerta slökkvilið í nágrannalöndum okkar. Hvorugu málinu er lokið þannig að niðurstaða dómsmálanna liggur ekki fyrir.

Annað málið er í Noregi þar sem sveitarfélag er á millidómsstigi dæmt til að greiða 3,7 milljónir NOK í bætur, vegna húss sem brann til grunna eftir að slökkvistarfi í þvottahúsi lauk. Því máli hefur verið áfrýjað til hæstaréttar Noregs. Hitt málið er í Bretlandi þar sem þrír stjórnendur í slökkviliði eru ákærðir fyrir manndráp af gáleysi (charged with manslaughter over the deaths of four firefighters) og sveitarfélagið sakað um að hafa ekki tryggt „heilsu og öryggi“ starfsmanna sinna í slökkviliðinu. Í því máli hefur ekki fallið dómur.

Sveitarfélag dæmt til að greiða bætur í Noregi

Í dómsmálinu í Noregi var um það að ræða að í september 2006 varð húseigandi var við reyk aftan við þurrkara í kjallara einbýlishúss. Eigandinn tók þurrkarann úr sambandi en verður stuttu seinna aftur var við reyk og eld við þurrkarann. Reynt var að slökkva eldinn með handslökkvitæki án árangurs og síðan var hurðum og gluggum í rýminu lokað og haft samband við slökkvilið. Hálftíma síðar kemur slökkviliðið á staðinn og reykkafarar fara inn og slökkva eldinn. Slökkvistarfi var lokið á einni og hálfri klukkustund og slökkviliðið fullvissaði sig um að eldurinn hefði verið slökktur áður en það fór af vettvangi‚ en þá höfðu íbúarnir flutt burt frá vettvanginum. Tveimur tímum síðar fékk slökkviliðið aftur boð um að kviknað væri í nú mannlausu húsinu, það kom á staðinn rúmum tuttugu mínútum síðar en þá hafði orðið yfirtendrun í húsinu sem brann til grunna. Húsið var byggt 1965 og var 80 m2 að grunnfleti.

Árið 2009 var dæmt í málinu á fyrsta dómsstigi í Noregi, þá var sveitarfélagið sýknað. Tryggingafélag húseiganda gerði kröfu á sveitarfélagið að það endurgreiddi tjónið vegna þess að slökkviliðið hafi ekki staðið fullnægjandi brunavakt.

Í dómnum þá var í fyrsta lagi farið yfir að rafmagn hefði ekki verið aftengt og komist að þeirri niðurstöðu að það væri matsatriði í hverju tilfelli hvort ganga skildi þannig frá eftir bruna í íbúðarhúsnæði. Slökkviliðið hefði í þessu tilfelli gengið úr skugga um að aðalrofi í töflu hefði verið sleginn út og það verið mat slökkviliðsins að það væru nægar ráðstafanir.

Í öðru lagi var vikið að því að ekki hefði verið nægjanlega vel staðið að eftirslökkvistarfi og eftirliti áður en slökkviliðið fór af vettvangi. Í dómnum kemst rétturinn að þeirri niðurstöðu að ekki sé í löggjöfinni skýr krafa um brunavakt eftir að eldur hefur verið slökktur og því verði að meta í hverju tilfelli hvort standa skuli brunavakt. Það væri því ekki hægt að segja í þessu tilfelli að slökkviliðið hefði sýnt óvarkárni þegar vettvangurinn var yfirgefinn einum og hálfum tíma eftir að eldurinn var fyrst slökktur.

Málinu var áfrýjað til millidómsstigs (í Noregi eru þrjú dómsstig, tingrett, lagmannsrett og höyesterett) þar sem það var tekið fyrir í nóvember 2010, þar sem sveitarfélagið tapaði málinu og var dæmt til að greiða 3,7 milljónir norskar krónur (u.þ.b. 74 m íslenskar krónur) í bætur.

Dómarar dómsstigsins voru ekki sammála um hvernig svara ætti spurningunni um hvort slökkviliðið hefði hegðað sér á ámælisverðan hátt með því að fara af vettvangi einum og hálfum tíma eftir að eldurinn var fyrst slökktur.

Meirihluti dómara lagði til grundvallar að slökkvistarf, eftirslökkvistarf og eftirlit slökkviliðsins hefði verið nægjanlega gott, en komst að þeirri niðurstöðu að það væri gáleysislegt að yfirgefa vettvang svo fljótt án þess að brunavakt væri staðin. Stjórnandi á vettvangi ætti að vera meðvitaður um hættuna á að enn leyndust glæður í húsinu þó eldurinn sýndist slökktur. Meirihlutinn lagði einnig á það áherslu að húsið var tómt, að búið var að nota slökkvitækið á staðnum og að lega hússins var þannig að um langan veg var að fara frá næstu slökkvistöð. Meirihlutinn komst því að þeirri niðurstöðu að slökkviliðið væri skaðabótaskylt.

Minnihluti dómara vildi meina að starf slökkviliðsins væri gott frá faglegu sjónarmiði og vísaði til þess að glóðarbruni getur leynst í allt að 48 klukkustundir sem myndi þýða að í sérhverju brunatilfelli þar sem hætta væri á glóðarbruna þyrfti að vakta vettvang í langan tíma og að ekki sé kveðið á um slíkt í lögum og reglum.

Í tilfellinu sem um ræðir var heldur ekki um hættu fyrir líf og heilsu að ræða. Minnihlutinn vildi því meina slökkviliðið hefði ekki sýnt af sér gáleysi og það væri því ekki skaðabótaskylt. Sveitarfélagið var dæmt til að greiða tryggingarfélagi húseiganda 3,7 m norskar krónur. Málinu hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar Noregs. Hér á landi eru hliðstæð dæmi um enduríkviknun eftir að slökkviliðið er farið af staðnum. Mikilvægt er að slökkvilið gangi tryggilega úr skugga um að eldur sé slökktur áður en brunavakt líkur.

Stjórnendur í slökkviliði í Englandi ákærðir um manndráp af gáleysi og sveitarfélagið sakað um að hafa ekki tryggt „heilsu og öryggi“ starfsmanna eftir að 4 slökkviliðsmenn létust í eldsvoða.

Í breska dómsmálinu er um að ræða eldsvoða í vöruhúsi í nóvember 2007. 100 slökkviliðsmenn og 16 slökkvibílar og 5 sjúkrabílar sinntu útkallinu. Þar sem ekki liggur fyrir neinn dómur í því máli er þessi samantekt eingöngu byggð á fréttaflutningi í breskum fjölmiðlum. Svo virðist sem upplýsingagjöf til slökkviliðsmannanna sem létust hafi verið ábótavant. Hvergi kemur fram hvernig fjarskiptasambandi við þá var háttað. Ekki er alveg ljóst hvort talið hefur verið að einhverjir starfsmenn hafi verið inni í vöruhúsinu þegar eldurinn kviknaði, haft er eftir talsmönnum að allir 300 starfsmenn vöruhússins hafi verið komnir út og að slökkviliðinu hafi verið kunnugt um það en einnig kemur fram að slökkviliðið hefði ekki sent reykkafara inn í húsið nema að talið væri að þar væri ennþá fólk inni. Ekkert úðakerfi var í byggingunni sem ætla má að hafi verið undir 20.000 m2 að flatarmáli (stærð byggingarinnar kemur ekki fram í fréttaflutningi en þar kemur fram að krafan um úðakerfi kemur inn í breskri löggjöf við 20.000 m2). Í fréttaflutningi kemur fram að um hlutastarfandi slökkviliðsmenn hafi verið að ræða.

Fljótlega eftir slysið var slökkviliðinu gert að uppfylla lagalegar kröfur varðandi það að slökkviliðsmenn fái þær upplýsingar sem þeir þurfa að hafa til að geta tekið réttar ákvarðanir við slökkvistarf. Slökkviliðinu voru gefnir fjórir mánuðir til úrbóta varðandi upplýsingar sem snerta staðsetningu, hættur í byggingunum sem um ræðir og hvar vatnsból sé að finna. Þá þegar var ljóst að þetta væri eingöngu fyrsta skrefið í aðgerðum vegna brota slökkviliðsins á lagalegum kröfum. Nú hafa þrír stjórnendur slökkviliðsins sem voru stjórnendur á vettvangi, varðstjórar og stöðvarstjóri verið ákærðir fyrir manndráp af gáleysi. Níu aðrir stjórnendur í slökkviliðinu sem einnig tengjast málinu verða ekki ákærðir þar sem ekki liggja fyrir nægjanlegar sannanir gegn þeim. Sveitarfélagið hefur jafnframt verið ákært fyrir að tryggja ekki heilsu og öryggi starfsmanna sinna.

Hér á landi eru engin dæmi um sambærileg atvik. Mikilvægt er að öryggi slökkviliðsmanna sé ávallt tryggt eins og unnt er meðan unnið er við slökkvistarf. Mannvirkjastofnun minnir á að í lögum og reglugerðum eru settar fram kröfur til að tryggja öryggi slökkviliðsmanna eins og kostur er. Benda má m.a. á reglur um menntun og þjálfun, gæði og umhirðu persónuhlífa og samskipti reykkafara við stjórnendur og mikilvægi þess að settum reglum sé fylgt.

Hægt er að skoða nánari fréttir á eftirfarandi linkum:

Skoða frétt í Aftonbladet þann 15.03.2011 en efri myndin er tekin úr þeirri frétt

 Skoða frétt á BBC þann 11.03.2011en neðri myndin er tekin úr þeirri frétt