17.03 2011

Hjálmar slökkviliðsmanna

Mannvirkjastofnun hefur frétt af því að verið sé að bjóða slökkviliðum hjálma sem ekki uppfylla gildandi kröfur til hlífðarbúnaðar. Af því tilefni vill stofnunin koma á framfæri eftirfarandi upplýsingum um hjálma slökkviliðsmanna.

Í 3. gr. reglugerðar nr. 914/2009 eru settar fram kröfur til gæða búnaðar: 

Allur hlífðarbúnaður skal að lágmarki uppfylla ákvæði þeirra ÍST EN staðla sem taldir eru upp í viðauka við reglugerð þessa. Sé keyptur hlífðarbúnaður sem framleiddur er eftir öðrum stöðlum skal búnaðurinn einnig uppfylla ÍST EN staðlana. Ætíð skal miða við nýjustu útgáfu staðalsins.

Í viðaukanum sem vísað er til kemur fram að um hjálma gildir staðallinn ÍST EN 443 – Hjálmar fyrir slökkviliðsmenn (Helmets for firefighters). Á heimasíðu Staðlaráðs Íslands www.stadlar.is er hægt að finna upplýsingar um nýjustu útgáfur staðla með því að slá inn númer staðalsins í leitarvél, og þá koma upplýsingar um staðalinn fram sem niðurstaða leitarinnar. Nýjasta útgáfa staðalsins er ÍST EN 443:2008 eins og sýnt er á myndinni hér fyrir neðan.

Helstu breytingar milli útgáfu staðalsins ÍST EN 443:1997 og núgildandi útgáfu (ÍST EN 443:2008) eru þær að kröfur til geislaþols hefur aukist verulega, þungi hlutar sem ekki gangi í gegnum hjálminn er aukinn úr 400 g í 1 kg auk þess sem bilið milli mælipunkta er minnkað. Í 2008 útgáfunni er skilið á milli tveggja gerða hjálma. Annars vegar er um að ræða hjálm sem merktur er gerð A (björgunarhjálmur) sem ætlaður er til björgunarstarfa þar sem hitaálag er lítið til dæmis við eftirslökkvistarf og verðmætabjörgun. Hins vegar er hjálmur af gerð B (slökkvihjálmur) sem ætlaður er til nota við slökkvistarf. Björgunarhjálmurinn er mun minni og léttari en slökkvihjálmurinn. Björgunarhjálmur þekur það svæði á höfðinu sem merkt er 1a á myndinni hér að neðan á meðan slökkvihjálmurinn af gerð B á að þekja sama svæði auk þess sem merkt er 1b á myndinni.