03.05 2011

Úttekt gerð á raflögnum og rafbúnaði í skólum

Síðastliðin ár hefur rafmagnsöryggissvið Mannvirkjastofnunar (áður Brunamálastofnun) látið skoða raflagnir tæplega tvöhundruð skóla víðsvegar um landið. Markmiðið með skoðununum var að fá sem gleggsta mynd af ástandi raflagna og rafbúnaðar í skólum og koma ábendingum á framfæri við eigendur og umráðamenn þeirra um það sem betur má fara. Þessi úttekt á raflögnum í skólum er liður í viðleitni Mannvirkjastofnunar til að átta sig á almennu ástandi raflagna í mismunandi gerðum bygginga.

Úttektin, sem tekur til stærstu sem smæstu þátta varðandi rafmagnstöflur, raflagnir og rafbúnað, leiðir í ljós að raflögnum og rafbúnaði í skólum er í mörgum tilfellum ábótavant. Athygli vekur að gerðar voru athugasemdir við merkingu búnaðar í rafmagnstöflum í meginþorra þeirra skóla sem skoðaðir voru, eða í 85 % tilvika. Þá voru gerðar athugasemdir við frágang tengla í 70 % tilvika og töfluskápa í 65 % tilvika.

Gamall og bilaður rafbúnaður og aðgæsluleysi fólks eru meðal helstu orsaka rafmagnsbruna og því er afar mikilvægt að rafbúnaður í skólum sé ávallt valinn með tilliti til staðsetningar og notkunar. Úr sumum ágöllum má bæta með betri umgengni en flestar athugasemdirnar kalla á fagþekkingu. Eigendur og umráðamenn skóla bera ábyrgð á ástandi þess rafbúnaður sem þar er notaður. Því er brýnt að löggiltur rafverktaki yfirfari raflagnir og rafbúnað í skólum svo að öryggi nemenda og starfsfólks sé tryggt.

Skýrsluna má nálgast hér en nánari upplýsingar veita Örn Sölvi Halldórsson og Jóhann Ólafsson hjá Mannvirkjastofnun í síma 591 6000.

Skoða skýrslu um úttekt á rafbúnaði í skólum