26.07 2011

Fyrsta vindmyllan tengd raforkukerfi Íslands

Haraldur Magnússon bóndi í Belgsholti í Melasveit hefur brotið blað í sögu raforkuframleiðslu á Íslandi með gangsetningu á fyrstu vindmyllunni sem tengd er raforkukerfi landsins. Myllan er hefðbundin spaðamylla og afkastar 30 kW. Hún er sænsk frá Hannevind Vindkraft AB en umboðsaðili á Íslandi er Kiano ehf. Í Hveragerði.
Haraldur segir að verkefnið hafi verið unnið í náinni samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð og Orkustofnun. Mikill áhugi hefur verið á þessu verkefni meðal bænda og annarra víða um land sem og orkufyrirtækja. Rafmagnið ætlar Haraldur að nýta til heimabrúks en alla umframorku selur hann inn á raforkukerfið. Vegna þeirrar tengingar þurfti hann að fá virkjunarleyfi sem annars þyrfti ekki.
Ef afköst myllunnar duga ekki þá kaupir Haraldur það sem upp á vantar af landskerfinu. "Hagkvæmnin liggur í því að framleiða sem mest fyrir eigin notkun. Þess vegna þurfa menn að velja stærð vindmyllu í hlutfalli við eigin rafmagnsnotkun. Kaupa ekki of stórar myllur og halda fjárfestingunni þannig í lágmarki."
Sérfræðingur frá Hannevind Vindkraft AB kom til að setja mylluna upp en turninn sjálfur er Íslensk smíð. Að verkinu hér komu fjölmargir aðilar eins og Ískraft, Rafsetning, Ferrozink og Víkurvagnar.