17.11 2011

Eldvarnaátakið 2011 - Slökkviliðsmenn hafa áhyggjur af berskjölduðum heimilum

Slökkviliðsmenn hafa áhyggjur af því hve mörg heimili í landinu eru berskjölduð fyrir eldsvoðum. Allt of mörg heimili hafa engan eða of fáa reykskynjara. Þau fengju því litla eða enga viðvörun ef eldur yrði laus að næturlagi. Innan við helmingur heimila er með eldvarnabúnað sem slökkviliðsmenn telja lágmarksbúnað, það er reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi. Nú fer í hönd tími þegar eldhætta eykst á heimilum. Slökkviliðsmenn hvetja fólk því til að grípa til viðeigandi varúðarráðstafana. Tveir létust í eldsvoðum á síðasta ári og eignatjón nam 1,7 milljarði króna.

Slökkviliðsmenn hafa því miður farið í útköll þar sem fólk hefur látist af þeirri einu ástæðu að reykskynjara vantaði. Það vilja þeir alls ekki þurfa að upplifa.

Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) efnir því til átaks um að fræða fólk um eldvarnir og mikilvægi þeirra dagana 18.-25. nóvember. Þá heimsækja slökkviliðsmenn um allt land á fimmta þúsund átta ára börn í grunnskólum um allt land til að fræða þau og fjölskyldur þeirra um eldvarnir. Þeir birta einnig auglýsingar í fjölmiðlum til að minna fólk á mikilvægi reykskynjara.

 Kannanir sem Capacent hefur gert fyrir LSS og Eldvarnabandalagið undanfarin ár sýna að hægt gengur að bæta eldvarnir heimilanna þrátt fyrir fræðslu og hvatningu slökkviliðsmanna og fleiri. Allt of fáir hafa þann búnað sem slökkviliðsmenn telja að þurfi að vera á hverju heimili; tvo reykskynjara eða fleiri, slökkvitæki nálægt útgangi og eldvarnateppi í eldhúsi.

 Átakið hefst í Fossvogsskóla í Reykjavík föstudaginn 18. nóvember. Í kjölfarið fá allir grunnskólar í landinu heimsókn frá slökkviliðinu sínu. Slökkviálfarnir Logi og Glóð aðstoða við fræðsluna og fá öll börn í 3. bekk söguna af hetjulegri baráttu þeirra systkina við Brennu-Varg að gjöf. Í sögunni er eldvarnagetraun og eru vegleg verðlaun í boði fyrir þá sem senda LSS réttar lausnir. Krakkarnir fá einnig handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimila með sér heim.

LSS stendur að Eldvarnaátakinu í samvinnu við TM, slökkviliðin í landinu, Mannvirkjastofnun, 112, Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands og fleiri. Könnun Capacent frá 2010 sýnir að 98,6 prósent landsmanna telja Eldvarnaátakið mikilvægt. Hún sýnir jafnframt að svipað hlutfall ber mikið traust til slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.