21.03 2012

Eldvarnabandalagið gerir fræðsluefni um eigið eldvarnaeftirlit

Eldvarnabandalagið hefur gefið út kynningarefni, leiðbeiningar, gátlista og önnur gögn sem nýtast fyrirtækjum og stofnunum við að koma á og viðhalda eigin eldvarnaeftirliti. Rafræn gögn eru aðgengileg hér á vef Mannvirkjastofnunar en kynningarefni og leiðbeiningar hafa einnig verið prentuð. Fyrirtæki og stofnanir geta nálgast prentgögnin hjá tryggingafélagi sínu eða slökkviliði. Á vefsvæði Eldvarnabandalagsins er einnig að finna handbók um eldvarnir heimilisins. 

Ríkar ástæður eru fyrir fyrirtæki og stofnanir til að taka upp eigið eldvarnaeftirlit. Það stuðlar að auknum skilningi eigenda og starfsfólks á mikilvægi eldvarna og getur dregið verulega úr hættu á að eldur komi upp. Komi eldur upp engu að síður eru miklar líkur á að ráða megi niðurlögum hans fljótt og draga úr tjóni, hafi rétt verið staðið að eldvörnum og fyrstu viðbrögðum. Slökkvilið og tryggingafélög hafa ákveðið að taka höndum saman um að heimsækja fyrirtæki og hvetja þau til eigin eldvarnaeftirlits. Þau hyggjast jafnframt fræða starfsfólk um eldvarnirnar heima fyrir. Gögn vegna verkefnisins eru á vefsvæði Eldvarnabandalagsins. 

Skoða vefsvæði Eldvarnabandalagsins um eldvarnir fyrirtækja og heimila