19.09 2012

Hleðsla rafbíla

Að gefnu tilefni vill Mannvirkjastofnun benda á að tenglar (innstungur) til heimilis- og ámóta nota, þ.e. hefðbundnir einfasa 16A tenglar, henta ekki til hleðslu rafbíla. Tenglar af þessu tagi eru ekki gerðir til að þola hámarksstraum (16A) nema skamman tíma í senn og mörg dæmi eru um bruna af völdum slíkra tengla séu þeir „lestaðir“ of mikið.

16A tengla til heimilis- og ámóta nota ætti aldrei að nota til hleðslu rafmagnsfarartækja nema tryggt sé að hleðslustraumur sé ekki hærri en 8A. Þeir gætu hentað til hleðslu á rafknúnum reiðhjólum og léttum bifhjólum en ekki til hleðslu á rafbílum. Þá þarf einnig að tryggja að tenglarnir séu jarðtengdir og varðir með bilunarstraumsrofa (lekastraumsrofa), því ekki er hægt að ganga út frá því að sú sé alltaf raunin, sérstaklega í eldra húsnæði.

Mannvirkjastofnun mælir eindregið með að við hleðslu rafbíla sé notuð „hleðsluaðferð 3“, sbr. staðal Alþjóða raftækniráðsins IEC nr. 61851-1:2010, Electric vehicle conductive charging system – Part 1: General requirements, þar sem viðeigandi búnaður, s.s. klær og tenglar, og aðferðir eru fyrirskrifaðar til að tryggja hleðslu rafbíla á öruggan hátt.