23.11 2012

Ungt fólk og leigjendur í mestri hættu vegna eldsvoða

Leigjendur og fólk á aldrinum 25-34 ára er berskjaldaðra fyrir eldsvoðum en aðrir. Ný rannsókn Capacent Gallup á eldvörnum á íslenskum heimilum sýnir að eldvarnir eru miklu lakari hjá fólki á aldrinum 25-34 ára en öðrum aldurshópum. Þá kemur fram sláandi munur á eldvörnum hjá leigjendum í samanburði við þá sem búa í eigin húsnæði. Þannig eru 63 prósent heimila í leiguhúsnæði með engan eða aðeins einn reykskynjara. Samsvarandi hlutfall er 26 prósent hjá þeim sem búa í eigin húsnæði. Unga fólkið er einmitt líklegra en þeir eldri til að búa í leiguhúsnæði.
Capacent gerði könnunina í október síðastliðnum fyrir Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) og Eldvarnabandalagið (EB).
Þegar spurt var um fjölda uppsettra reykskynjara kom í ljós að enn er enginn reykskynjari á sex prósent heimila og aðeins einn á 25,1 prósent heimila. Ástandið er hins vegar miklu verra hjá aldurshópnum 25-34 ára. Þar eru 11 prósent án reykskynjara og önnur 38 prósent aðeins með einn. Og sem fyrr segir er ástandið enn verra í leiguhúsnæði. Stór hluti þeirra sem segja engan uppsettan reykskynjara vera á heimilinu eiga reykskynjara sem á eftir að setja upp. Athygli vekur einnig að Reykjavík kemur illa út úr samanburði við önnur landssvæði.
Valdimar Leó Friðriksson, framkvæmdastjóri LSS, segir að innan EB hafi verið rætt um hugsanlegar leiðir til að auka eldvarnir á umræddum heimilum.
- Við höfum meðal annars rætt þann möguleika að setja ákvæði í lög um skyldur leigusala til að tryggja eldvarnir í leiguhúsnæði. Einnig að skilyrða greiðslu húsaleigubóta að einhverju leyti við lágmarks eldvarnir í viðkomandi húsnæði. Og það er ljóst að við verðum að auka fræðslu til aldurshópsins sem stendur sig verst en þar má gera ráð fyrir að algengt sé að ung börn séu í heimili, segir Valdimar.
Unga fólkið og leigjendurnir skera sig einnig úr þegar spurt er hvort slökkvitæki sé á heimilinu. Nær 67 prósent heimila segjast eiga slökkvitæki en heimili ungs fólks og leigjenda eru langt undir meðaltali hvað þetta snertir. Sama máli gegnir þegar spurt er um eldvarnateppi.
Mælt er með því að á hverju heimili séu reykskynjarar, tveir eða fleiri, slökkvitæki og eldvarnateppi. Aðeins um 43 prósent heimila uppfylla þessi skilyrði.
Eldvarnaátak LSS hófst í gær og stendur til mánaðamóta. Þá heimsækja slökkviliðsmenn börn í 3. bekk grunnskólanna og fræða þau og fjölskyldur þeirra um eldvarnir. Börnin fá
handbók EB um eldvarnir heimilanna og söguna af Brennu-Vargi, Loga og Glóð að gjöf. Krakkarnir fá líka að taka þátt í Eldvarnagetrauninni en vegleg verðlaun vegna hennar eru veitt á 112-daginn ár hvert. LSS birtir einnig auglýsingar í sjónvarpi og útvarpi til að minna á mikilvægi reykskynjara.
Helstu styrktaraðilar Eldvarnaátaksins eru Mannvirkjastofnun, 112, Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, TM og slökkviliðin í landinu.
Eldvarnabandalagið er samstarfsvettvangur um auknar eldvarnir. Aðild að því eiga:
Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, TM hf., Vátryggingafélag Íslands hf. og Vörður tryggingar hf.