10.06 2013

Norræn samvinna í rafmagnsöryggismálum

Norrænt samstarf í rafmagnsöryggismálum miðar að því að greina áhættur á frumstigi og efla slysavarnir. Norrænar stofnanir sem fara með eftirlit með rafmagnsöryggismálum, stuðla að bættu rafmagnsöryggi með reglubundnu eftirliti, rannsóknum og eftirfylgni með slysum.  Slys af völdum rafmagns á Norðurlöndum hafa nú verið rannsökuð í masters verkefni Ms. Minna Kinnunen: "Electrical Accident Hazards in the Nordic Countries". Í verkefninu var ástandið á Norðurlöndum rannsakað með því að greina öll rafmagnsslys sem urðu á árinu 2011 og með viðtölum við stjórnvöld rafmagnsöryggismála í hverju landi.

Kinnunen rannsakaði hvers konar slys verða á Norðurlöndum og hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að þau gerist í framtíðinni. Að auki greindi hún sérstök vandamál á sviði rafmagnsöryggis, nýjar áhættur, góða starfshætti í greininni og leitaðist við að finna nýjar leiðir sem stuðla að eflingu rafmagnsöryggis á Norðurlöndunum. Rannsóknin greindi ástand rafmagnsöryggismála í hverju landi og tók til allra slysa sem höfðu verið tilkynnt til stjórnvalda á árinu 2011. Einnig voru tekin viðtöl við starfsmenn þeirra stjórnvalda sem unnu að rafmagnsöryggismálum.

Sjö manns létust af völdum rafmagnsslysa á Norðurlöndum árið 2011. Dauðsföll eiga sér stað árlega við vinnu með rafmagn, bæði meðal fagmanna á rafmagnssviði og annarra. Aðferðir við skráningu rafmagnsslysa og söfnun upplýsinga um þau eru mjög mismunandi á milli landa. Þetta hefur áhrif á hvers konar upplýsingar berast til stjórnvalda í hverju landi. Rannsóknin sýndi hins vegar með nokkurri vissu að árið 2011 bárust fleiri upplýsingar um slys af völdum rafmagns í skólum og  leikskólum í Svíþjóð en í öðrum löndum. Í Danmörku voru flest slys við vinnu á strengjum í jörðu og í Finnlandi vegna vinnu við rafmagnslínur.  Noregur var hins vegar í nokkurri sérstöðu vegna fjölda slysa á kunnáttumönnum öðrum en fagmenntuðum. Á Íslandi urðu tvö slys af völdum rafmagns á árinu 2011.

Niðurstöður rannsóknarinnar minna okkur á mikilvægi norræns samstarfs við eflingu forvarna á sviði rafmagnsöryggismála. Eitt af sameiginlegum vandamálum landanna er hve litlar upplýsingar liggja fyrir um slys sem gerast utan vinnustaða í frítíma fólks. Skort á þessum upplýsingum má rekja til þess að ekki er skylt að tilkynna þau slys sem verða utan vinnutíma. Einnig er líklegt að almenningi sé ekki kunnugt um að hægt er að tilkynna þessi slys til stjórnvalda og stuðla þannig að bættum forvörnum í sínu landi.

Norrænu stofnanirnar sem sjá um rafmagnsöryggi eru Elsäkerhetsverket í Svíþjóð, Sikkerhedsstyrelsen í Danmörku, Tukes í Finnlandi, DSB í Noregi, Mannvirkjastofnun á Íslandi, Grønlands Elmyndighed í Grænlandi, Elnevndin í Færeyjum og Ålands Landskapsregering í Álandseyjum.

Hér er tengill í masters verkefni Minna Kinnunen, "Electrical Accident Hazards in the Nordic Countries":   http://www.tukes.fi/Tiedostot/sahko_ja_hissit/Diplomityo_Kinnunen_2013.pdf