12.09 2013

Könnun á umfangi slysa og óhappa af völdum rafmagns hjá fagmönnum á rafmagnssviði

Fyrir stuttu lét Mannvirkjastofnun í samvinnu við Samorku, SART og Rafiðnaðarsamband Íslands rannsóknarfyrirtækið Capacent Gallup kanna tíðni slysa og óhappa hjá fagmönnum á rafmagnssviði hér á landi. Sambærileg könnun var gerð árið 2005 og eru niðurstöður úr henni mjög áþekkar niðurstöðum úr nýju könnuninni. Markmiðið með fyrrgreindum könnunum er fyrst og fremst að fá betri yfirsýn yfir slys og óhöpp af völdum rafmagns hér á landi enda berast Mannvirkjastofnun einungis upplýsingar um alvarlegustu rafmagnsslysin.
Könnunin náði til eitt þúsund fagmanna á rafmagnssviði og var svarhlutfallið rúmlega 50%.

Könnunin leiddi í ljós að tæplega 83% fagmanna höfðu á síðast liðnum 20 árum ekki orðið fyrir slysi af völdum rafmagns og um 73% þeirra höfðu ekki orðið fyrir óhappi af völdum rafmagns síðast liðna 12 mánuði.

Þeir sem höfðu lent í slysi hlutu flestir brunasár eða 28% en 55% svarenda töldu sig ekki hafa hlotið áverka. Flest slysin eða 94% áttu sér stað við vinnu við lágspenntar raflagnir og rafbúnað.
Það vekur athygli að einungis 20% þeirra sem lentu í slysi eða óhappi leituðu til læknis eða heilsugæslu. Þeir sem ekki leituðu til læknis töldu flestir ekki þörf á því eða fannst atvikið ekki alvarlegt. Þeir sem leituðu til læknis fengu flestir meðhöndlun af einhverju tagi eða um 90%. Einungis 6% þeirra sem lentu í slysi eða óhappi finna fyrir óþægindum sem rekja má til slyssins.
Rúmlega 40% svarenda telja aðgáts- eða kæruleysi helstu orsök slysa og óhappa af völdum rafmagns en rúmlega 20% telja hana vera vanþekkingu eða reynsluleysi.
Tæplega 60% svarenda spennuprófa alltaf áður en vinna hefst og um 25% svarenda gera það oft. Um 8% svarenda spennuprófa aldrei eða sjaldan. Ástæðu fyrir því að spennuprófa ekki telja 35% svarenda vera kæruleysi en 18% telja tímaskort eða stress ráða för.
Frekari upplýsingar um könnunina má finna hér að neðan:
Skoða könnun á umfangi slysa og óhappa af völdum rafmagns hjá fagmönnum á rafmagnssviði