28.10 2013

Etanólarnar

Af gefnu tilefni vill Mannvirkjastofnun benda á eldhættu sem getur stafað af etanól-örnum ef ekki er rétt með þá farið.

Undanfarin ár hefur verið sett upp mikið af etanól-örnum í húsum hér á landi og það talið þeim til kosts að ekki þurfi að setja upp reykháf frá þeim og "engin" eldhætta stafi af þeim. Mannvirkjastofnun er kunnugt um að sprengingar hafi orðið í slíkum örnum með þeim afleiðingum að það kviknaði í húsinu sem þeir voru í og einnig eru til dæmi um alvarleg slys á fólki vegna etanól-arna.

Í etanól-örnum er brennt etanóli í opnum skálum, ýmist á vökvaformi eða sem gel. Etanólið hefur blossamark 13°C, sprengimörk þess er 3,3-19% og sjálfsíkviknun verður við 370°C.

DBI í Danmörku hefur prófað slíkan arinn í tilraunastofu sinni. Þar voru skálarnar í arninum fylltar af etanóli og u.þ.b. einni matskeið (2 cl) hellt niður utan við þær áður en kveikt var upp í arninum. Eftir 20 mín varð sprenging í honum. Við sprenginguna slettist logandi etanól út úr arninum og logaði á gólfinu umhverfis arininn. Talið er að algengasta orsökin fyrir sprengingunum sé að nokkuð af etanóli hafi hellst niður í lokaðan botn í arninum. Við hitann frá logunum gufi etanólið upp þar til innihald þess í loftrýminu í arninum nær sprengimörkum en við það verður sprenging og logandi etanólið dreifist út frá arninum.

Mannvirkjastofnun vinnur að leiðbeiningum um uppsetningu og notkun etanól-arna sem settar verða á heimasíðu stofnunarinnar þegar fyrsta útgáfa þeirra liggur fyrir. Eftirfarandi texti er úr drögum að þessum leiðbeiningum.

Leiðbeiningar um etanól-arna

Við uppsetningu á etanól-arni þarf að gæta að eftirfarandi þáttum:

• Arininn þarf að hengja á eða láta standa á stöðugu og óbrennanlegu undirlagi.
• Lágmarksfjarlægð að brennanlegu efni má ekki vera minni en 1 m (gluggatjöld og þess háttar).
• Lágmarksstærð herbergis sem slíkur arinn er notaður í er 23 m2 eða 56 m3, en eftir því sem arininn og eldsneytismagnið er stærra þarf stærra rými.
• Arininn má ekki nota í kjallara né í svefnherbergjum. 
• Ekki má setja arnana þar sem er dragsúgur (trekkur). 
• Við bruna etanólsins minnkar súrefni í rýminu og koldíoxíð og kolmónoxíð myndast. Það er því mikilvægt að loftræsting sé nægjanleg. 
• Við val á staðsetningu þarf að huga að því að börn og gæludýr komist ekki í snertingu við logana. 
• Fara skal að öðru leiti eftir leiðbeiningum framleiðanda.

Nokkrar ábendingar við notkun etanól-arna:

• Ekki má flytja arininn meðan logar í honum né meðan hann er heitur eftir notkun. Eingöngu má flytja hann þegar ekkert eldsneyti er í honum.
• Ekki má láta loga í arninum án eftirlits fullorðinna. 
• Ekki má nota aðra gerð eldsneytis en framleiðandi mælir með.
• Öll ílát undir eldsneyti eiga að vera með barnalæsingu og geymast á öruggum stað.
• Áfylling eldsneytis á að fara eftir leiðbeiningum framleiðanda. Aldrei má bæta etanóli á arinn sem logar í. Gæta þarf að því að þegar lítið er orðið eftir af etanólinu getur verið erfitt að sjá hvort ennþá logar í því. Ekki má fylla á arininn fyrr en hann er orðinn alveg kaldur. Gæta þarf sérstaklega að því að eldsneyti hellist ekki niður í hann.
• Þegar kveikt er upp í arninum er gott að nota langar eldspýtur eða langa kveikjara.
• Eingöngu má slökkva í eldsneytinu með þar til gerðum lokunum, þar sem þær eru til staðar, annars verður að láta eldsneytið brenna upp. Ekki má nota vatn til þess að slökkva í bruna í etanól-arni. Þetta á einnig við þegar slökkva þarf í arninum vegna óhapps. Nota skal slökkvitæki sem ætlað er til nota á alkóhól-elda t.d. dufttæki.
• Fara skal að öðru leiti eftir leiðbeiningum framleiðanda um notkun arinsins.

Mannvirkjastofnun vill gjarnan fá ábendingar og athugasemdir sem tengjast leiðbeiningum um etanól-arna á mvs@mvs.is