02.12 2013

Málþing á Akureyri um raka og myglu

Málþing um raka og myglu í byggingum fór fram síðastliðinn miðvikudag, hinn 20. nóvember, fyrir fullum sal á Hótel KEA á Akureyri. Sex erindi voru flutt á málþinginu en það sóttu um 100 manns nánast úr öllum starfsstéttum. Hægt er að nálgast þessi erindi á vef Samtaka Iðnaðarins.

http://www.si.is/si-docs/2013_mygla_akureyri/index.htm

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sveppafræðingur, fjallaði þar um „óboðna sveppi í íslenskum húsum“ bæði búsvæði innanhússsveppa t.d. þakvið sem blotnar og gólfefni sem haldast rök um tíma og því hvernig sveppir vaxa á þeim og brjóta þau niður. Hún sagði frá nokkrum tegundum smásveppa sem gjarnan vaxa innanhúss og þeirri fjölbreyttu fungu sem finna má á smábút af blautu byggingarefni.
Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, BSc í líffræði, sem að margra mati er sú, sem vakti Íslendinga til vitundar um þessa vágesti, (sveppi/myglu) sem hafa veruleg áhrif á heilsufar fólks, var næst í röðinni. Sylgja Dögg vitnaði mikið í fyrirlestur dr. Önnu Hyvärinen frá Finnlandi sem hún flutti á stóru málþingi á Grand Hóteli hinn 13. september síðastliðinn. Sylgja Dögg sagði fundargestum einnig frá reynslu sinni í baráttunni við þessa vágesti og kynnti kostnaðartölur sem sá vágestur hefur í för með sér og heimfærði niðurstöðutölur frá öðrum löndum á íslenskan mælikvarða).
Í erindi Jóns Guðmundssonar, fagstjóra byggingarsviðs Mannvirkjastofnunar og Björns Marteinssonar, sérfræðingi hjá Nýsköpunarmiðstöð, kom skýrt fram að slík vandamál eru fyrir hendi hér á landi. Í máli þeirra kom fram mikilvægi þess að loftræsting í mannvirkjum sé fullnægjandi. Einnig skortir tilfinnanlega fleiri rannsóknir, ekki síst á umfangi heilsuvanda tengdum rakaskemmdum varðandi þau byggingarefni og byggingaraðferðir sem reynast best til að verjast raka í byggingum? Þá var rætt hvaða hagfræðilegu áhrif slík vandamál geta haft og hvað þau kosta þjóðfélagið. Ljóst er að hér á landi vantar betri úrræði fyrir fólk sem lendir í þessum vandamálum og óljóst hvaða stofnanir geta hjálpað þeim sem lenda í slíkum vandamálum eða missa innbú sitt vegna rakaskemmda?
Þórey Agnarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, fjallaði um raka og myglu í byggingum, heilsu, hollustu og aðgerðir. Þórey rakti hvernig mál, sem berast eftirlitinu, eru meðhöndluð. Hún fjallaði ennfremur um regluverkið og annað sem Heilbrigðiseftirlitið og aðrar stofnanir, þurfa að starfa eftir.
Að lokum sagði Tómas Guðbjartsson, hjartaskurðlæknir, frá sinni eigin reynslu af rakaskemmdu húsnæði á Landspítala við Hringbraut. Eftir að hafa leitað til ótal kollega, tekið sýklalyf í næstum 7 mánuði og gengist undir skurðaðgerð á ennisholum kom í ljós að orsökin var rakaskemmt vinnuhúsnæði. Tómas tók fram að efla þyrfti fræðslu lækna og læknanema um þessi vandamál og kallaði eftir vitundarvakningu enda meðferð flóknari en hefðbundin sýklalyf og sterar.
Tómas vitnaði einnig í erindi sem María Ingibjörg Gunnbjörnsdóttir, lungna- og ofnæmislæknir, flutti á Grand Hótel 13. september eins og fyrr er vitnað til. Þar kom meðal annars fram hvaða einkenni má rekja til rakaskemmds húsnæðis en María hefur birt niðurstöður margra rannsókna á þessu sviði. Í erindi hennar kom fram að sterk tengsl eru milli heilsutengdra vandamála og raka í húsnæði enda þótt stundum geti verið erfitt að sanna slík orsakatengsl með ótvíræðum hætt . Tengsl rakaskemmda og einkenna eru þó skýr og staðreynd að fólki batnar yfirleitt þegar það yfirgefur byggingar eða þegar þær eru lagaðar með tilliti til raka og myglu. Helstu einkenni sjúklinga, sem vistast í rakaskemmdu húsnæði, eru frá efri loftvegum, eins og hnerri, hæsi, hálsbólga og bólga í ennisholum, en sumir fá astma og alvarlegri lungnasýkingar. Önnur einkenni, t.d. þurrkur í augum, meltingartruflanir, flensulík einkenni og orkuleysi/þreyta eru einnig vel þekkt. Samkvæmt rannsóknum Maríu eru rakaskemmdir í um 20% húsnæðis hér á landi og þær geta haft mikil áhrif á heilsu fólks. 

Miklar umræður sköpuðust að fyrirlestrum loknum. Þar kom meðal annars þetta fram:
Finnar hafa unnið að þessum málum markvisst í um 30 ár. Finnskir vísindamenn og skoðunaraðilar treysta ekki á loftsýnatökur við skoðun á húsnæði í þessum efnum. Þar sem mygla er sjáanleg er engin þörf á sýnatöku heldur skal fjarlægja mygluna því að öll mygla, sem vex innandyra, telst vera áhættuþáttur heilsu. Einnig kom fram að á kaldari svæðum eins og hér á landi og í Finnlandi má búast við að mygla leynist undir gólfefnum eða í veggjum. Því þarf að efnisrakamæla og opna byggingarefnin til að ganga úr skugga um raunverulegt ástand bygginga. Eiturefni og skyndilausnir duga ekki til að leysa vandann þar sem þurr gömul mygla hefur sömu heilsufarsleg áhrif og sú sem er í fullum vexti. Árangur næst eingöngu ef rakaskemmd og mygluð byggingarefni eru fjarlægð. Margir aðrir þættir en raki hafa áhrif á heilnæmi innilofts en byggingar skemmast í 70-80% tilvika vegna niðurbrots, raka og lífvera sem honum fylgja. Forvarnir vegna raka í húsnæði er því mikilvægt skref, bæði vegna tjóns og galla. Fyrsta skrefið til að leysa slíkt vandamál hér á landi er að fagstéttir og stofnanir viðurkenni vandamálið, hafi samráð og miðli upplýsingum, bæði sín á milli og til almennings. Frekari upplýsingar fyrir almenning og fjölmiðla er hægt að nálgast á heimasíðu Umhverfisstofnunar á www.ust.is Meistarafélag byggingamanna á Norðurlandi hafði veg og vanda af þessu málþingi og fyrir það framtak eru þeim færðar bestu þakkir svo og öllum fyrirlesurum og gestum málþingsins fyrir þeirra þátt. Málþing þetta er byggt á málþingi sem haldið var á Grand Hóteli í Reykjavík 13. september síðastliðinn. Að því málþingi stóðu margir aðilar, bæði hagsmunaaðilar, hönnuðir og embættismenn sem koma að mannvirkjagerð.