25.05 2014

Hæg breytileg átt, nýr vettvangur þverfaglegrar hugmyndavinnu um íbúðakosti í íslensku þéttbýli

Hæg breytileg átt, nýr vettvangur þverfaglegrar hugmyndavinnu um íbúðakosti í íslensku þéttbýli

Hæg breytileg átt er nýr vettvangur þverfaglegrar hugmyndavinnu sem er ætlað að varpa ljósi á vistvænni, samfélagsmiðaðri, hagkvæmari og framsæknari íbúðakosti í íslensku þéttbýli. Fjórir verkefnahópar voru valdir til að þróa hugmyndir um framtíðarkosti í íslenskum íbúðamálum og kynntu þau verkefni sín í Iðnó laugardaginn 24. maí.

Eftir kynningarnar tóku við pallborðsumræður þar sem hugmyndirnar og framtíð skipulagsmála voru ræddar en í þeim tóku þátt. Jón Gnarr borgarstjóri, Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra, Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar, Gunnar Ó. Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur og Ríkharður Kristjánsson, byggingarverkfræðingur.

Þétting byggðar, byggingarreglur og framtíð einkabílsins voru mikið til umræðu. Þá velti Jón Gnarr m.a. fyrir sér hver heimspekin á bak við einkabílinn væri og nefndi að sennileg skýring væri að hugmyndir um frelsi og sjálfstæði á meðal Íslendinga hefðu helst varðað veginn fyrir því hversu fyrirferðarmikill hann er í daglegu lífi hér á landi.

Nánari fréttir af fundinum eru í Viðskiptablaðinu og á vef verkefnisins Hæg breytileg átt.