04.07 2014

Hin gleymda brunahætta heimilisins?

Hin gleymda brunahætta heimilisins?

Stór hluti allra eldsvoða á heimilum verða í tengslum við notkun rafmagns. Af þeim eru rúmlega  fimm af hverjum tíu vegna aðgæsluleysis við notkun eldavéla og í flestum tilvikum hefði með einföldum umgengnisvenjum mátt komast hjá þeim.

Á hverju ári verða fjölmargar fjölskyldur hér á landi fyrir tjóni á heimili sínu vegna elds út frá eldavélum. Oftast er ekki um stórfelldan eldsvoða að ræða en þau tilvik skipta tugum þar sem kalla hefur þurft slökkvilið til. Lítill eldur verður líka ótrúlega fljótt að stórum eldi – sorgleg reynsla alltof margra.

Eldavélabruna má yfirleitt koma í veg fyrir. Í flestum tilvikum er um að kenna gleymsku og aðgæsluleysi við matseld eða umgengni við eldavélar – sem sagt okkur sjálfum. Alltof mörg dæmi eru um eldsvoða vegna þess að pottur eða panna hefur verið skilin eftir á heitri hellu meðan athyglin beinist að öðru, t.d. símanum, börnunum eða sjónvarpinu, tíminn líður hratt og fyrr en varir hefur eldurinn blossað upp. Mikilvægt er að skilja aldrei við pott eða pönnu á heitri hellu.

Mannvirkjastofnun hefur látið gera fræðslurit sem minnir almenning á aðgæslu við notkun eldavéla. Fræðsluritið er hægt að nálgast hér.