19.11 2014

Eldvarnabandalagið vill skylda leigusala til að tryggja eldvarnir

Eldvarnabandalagið vill skylda leigusala til að tryggja eldvarnir

Eldvarnir hjá leigjendum eru miklu lakari en hjá þeim sem búa í eigin húsnæði samkvæmt nýrri könnun Capacent Gallup. Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar, telur að bregðast verði við þessari staðreynd með því að setja ákvæði í húsaleigulög og löggilta leigusamninga um skyldur leigusala vegna eldvarna. Könnunin sýnir að 63 prósent leigjenda hafa engan eða aðeins einn reykskynjara. Hlutfallið er 26 prósent hjá þeim sem búa í eigin húsnæði. 

"Við hjá Eldvarnabandalaginu höfum bent velferðarráðuneytinu á nauðsyn þess við endurskoðun húsaleigulaga að setja ákvæði um skyldur leigusala til að tryggja lágmarkseldvarnir þegar húsnæði er leigt út. Margvíslegar kröfur eru gerðar um búnað í leiguhúsnæði og ástand þess en það er hvergi minnst á eldvarnir í núgildandi lögum. Í löggiltum leigusamningum er jafnframt lýsing á ástandi húsnæðis og þar þarf að gera ráð fyrir eldvarnabúnaði, að lágmarki einum virkum reykskynjara og nýhlöðnu slökkvitæki" segir Björn en Mannvirkjastofnun á aðild að Eldvarnabandalaginu ásamt níu öðrum fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum. Bandalagið hyggst beita sér fyrir auknum eldvörnum í leiguhúsnæði á næstu misserum. 

Capacent gerði könnunina fyrir Eldvarnabandalagið og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna í september og október síðastliðnum. Þátttakendur voru 1.449 manns af öllu landinu, 18 ára og eldri, og var þátttökuhlutfallið 58,9 prósent. Eldvarnir eru áberandi lakari hjá leigjendum en þeim sem búa í eigin húsnæði hvort sem litið er til reykskynjara, slökkvitækja eða eldvarnateppa. Nær einn af hverjum tíu leigjendum hafa engan reykskynjara en það gildir um sex prósent þeirra sem búa í eigin húsnæði. Mun algengara er að fólk í eigin húsnæði hafi tvo reykskynjara eða fleiri eins og slökkviliðsmenn mæla með. Þar af segist nær helmingur vera með þrjá reykskynjara eða fleiri. Hér er hægt að nálgast könnunina. 

Eldvarnabandalagið er samstarfsvettvangur um auknar eldvarnir. Aðild að því eiga:

Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, TM hf., Vátryggingafélag Íslands hf. og Vörður tryggingar hf.

Sjá einnig frétt um málið á mbl.is.