24.03 2015

Markaðskönnun á slökkvitækjum, reykskynjurum og slöngukeflum

 Markaðskönnun á slökkvitækjum, reykskynjurum og slöngukeflum

Mannvirkjastofnun vekur athygli á því að á næstu dögum fer fram könnun vegna markaðseftirlits með slökkvitækjum, reykskynjurum og slöngukeflum. Könnunin er gerð á vegum Mannvirkjastofnunar í samráði við Vinnueftirlitið. Kannað verður hvort lágmarksauðkenni vöru liggi fyrir og sýnt sé fullnægjandi samræmi við þá staðla sem gilda um framangreindar vörur.
Markmið markaðseftirlits er að kanna hvort að vara með ófullnægjandi eiginleika sé markaðssett hér á landi og hvort formleg skilyrði til markaðssetningar sem gerð er krafa um í lögum og reglugerðum séu uppfyllt.
Skoðað verður hjá framleiðendum og seljendum hvort framangreindar vörur á markaði hér á landi uppfylli formleg skilyrði laga um byggingarvörur nr. 114/2014 og laga um brunavarnir nr. 75/2000. Vörur sem falla undir 25. gr. laga um brunavarnir geta fallið bæði undir reglugerð nr. 1068/2011 um slökkvitæki og reglur Vinnueftirlitsins nr. 571/2000 um þrýstibúnað.
Mannvirkjastofnun hefur falið skoðunarstofu BSI á Íslandi að annast könnunina fyrir hönd stofnunarinnar skv. heimild í 15. gr. laga um byggingarvörur, en skv. lögunum er Mannvirkjastofnun heimilt að fela skoðunarstofu að skoða vöru hjá framleiðanda, viðurkenndum fulltrúa hans, innflytjanda eða seljanda og krefja þá um allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn.