21.05 2015

Tjón vegna vatnsleka vel á þriðja milljarð króna

Tjón vegna vatnsleka vel á þriðja milljarð króna

Vatnstjón á heimilum og í fyrirtækjum nam vel á þriðja milljarði króna 2014 og varð langmestur hluti tjónsins á heimilum. Heildarfjöldi tilvika er 7.387 eða að meðaltali 20 á degi hverjum. Í 1.442 tilvikum reyndist tjónið ekki bótaskylt. Langalgengast er að tjón í hverju tilviki sé innan við ein milljón króna en þó nam kostnaður í 418 tilvikum einni milljón eða meira og í tugum tilvika nam tjónið þremur milljónum króna eða meira. Heimilin bera talsverðan hluta kostnaðarins sjálf.

Þetta kemur fram í tölum tryggingafélaganna sem teknar voru saman af óháðum aðila fyrir samstarfshóp um varnir gegn vatnstjóni. Vatnstjón nam alls um 2,4 milljörðum króna en þar af er eigin áhætta tryggingataka um 320 milljónir króna sem að langmestu leyti fellur á einstaklinga. Tryggingafélögin bættu einstaklingum tjón sem nemur um 1,7 milljörðum króna en fólk situr sjálft uppi með nær 300 milljónir í eigin áhættu. 

Kostnaður við hvert bætt tjón nemur að meðaltali tæplega 300 þúsund krónum. Sé meðaltalið það sama fyrir hvert tjón sem ekki var bótaskylt má ætla að heimilin hafi tekið á sig um 430 milljónir króna í óbætt tjón. Að viðbættri eigin áhættu eru bein fjárútlát heimilanna vegna vatnsleka þá yfir 700 milljónir króna. Þá er ótalið rask, óþægindi og jafnvel heilsutjón sem getur hlotist af vatnsleka, raka og myglu. Dæmi eru um að fólk þurfi að yfirgefa heimili sín dögum og vikum saman vegna vatnstjóns.  

Langalgengast er að tjón í einstökum tilvikum sé innan við milljón króna. En dæmi eru um mjög kostnaðarsöm tilvik:

  • Tjón meira en 4 milljónir: 22

  • Tjón á bilinu 3-4 milljónir: 24

  • Tjón á bilinu 2-3 milljónir: 56

  • Tjón á bilinu 1-2 milljónir: 316

Tilvik þar sem tjón er milljón krónur eða meira voru því 418 talsins. 

Dæmi um vatnstjón og kostnað

Vatnstjón verður  af ýmsum orsökum og kostnaður vegna þeirra er mjög mismunandi, eins og dæmin hér að neðan sýna. Unnt hefði verið að koma í veg fyrir þau öll með aðgæslu, viðhaldi og vandaðri frágangi: 

Gleymdist að skrúfa fyrir baðið

Gleymdist að skrúfa fyrir þegar látið var renna í bað. Vatn flæddi yfir eikarparket á gangi og inn í stofu. Parketið reyndist ónýtt. Þurrkfyrirtæki kom á staðinn og stóð þurrkun yfir í fjóra daga. Fimm dögum eftir tjón var búið að leggja nýtt parket.

Tjón: 700.000 kr. 

Leki við amerískan kæliskáp

Vatnsleki varð þegar tenging við amerískan kæliskáp gaf sig í nýju húsi. Parket bólgnaði upp. Iðnaðarmenn þurrkuðu og fjarlægðu parket og neðsta hluta gifsveggjar. Mygla var farin að myndast en var upprætt strax. Parket var endurnýjað að hluta og slípað og lakkað.

Kostnaður: 1.358.166 kr. 

Viðhaldi ekki sinnt

Vatn frá blöndunartæki lak inn í vegg. Merki um raka komu í ljós á vegg og á parketi á gangi. Tjónið fékkst ekki bætt því sýnt þótti að viðhaldi hefði ekki verið sinnt. Kostnaður húseiganda líklega á bilinu 160.000-200.000 kr. 

Samstarfshópur um varnir gegn vatnstjóni

Ellefu fyrirtæki, stofnanir og samtök mynda samstarfshóp um varnir gegn vatnstjóni. Samstarfshópurinn telur að mjög megi draga úr vatnstjóni með fræðslu til almennings og aukinni þekkingu og fagmennsku iðnaðarmanna. Hópurinn hefur gefið út leiðbeiningar um hvernig verjast megi vatnstjóni og er þær meðal annars að finna á vefsíðum tryggingafélaganna. 

Að hópnum standa Félag dúklagninga- og veggfóðrarameistara, Félag pípulagningameistara, IÐAN fræðslusetur, Mannvirkjastofnun, Múrarameistarafélag Reykjavíkur, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samtök um loftgæði, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., TM hf., VÍS hf. og Vörður tryggingar hf.