05.06 2015

Orkubú Vestfjarða fær viðurkenningu fyrir öryggismál

Orkubú Vestfjarða fær viðurkenningu fyrir öryggismál

Á landsþingi Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem haldið var á Ísafirði var Orkubúi Vestfjarða veitt viðurkenning fyrir kerfisbundið vinnuverndarstarf og forvarnir sem stuðla að bættu starfsumhverfi og öryggi starfsmanna. Í tilefni af þessu má nefna, að OV hefur sett sér stefnu í öryggis-, heilbrigðis- og vinnuumhverfismálum, þar sem stefnan er slysalaus vinnustaður. Einnig liggur fyrir skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað.

Orkubúið hefur komið sér upp innra öryggisstjórnunarkerfi, sem uppfyllir skilyrði laga um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga. Kerfið er tekið út af faggiltri skoðunarstofu á þriggja ára fresti og jafnframt er það vottað af Mannvirkjastofnun. Orkubúið var fyrsta rafveitan sem fékk viðurkennt öryggisstjórnunarkerfi árið 1999. Jafnframt starfrækir Orkubúið gæðakerfi sem er vottað og tekið út af óháðum aðila tvisvar á ári. Vottunin tekur til framleiðslu, flutnings, dreifingar og sölu á raforku og vinnslu og dreifingar og sölu á heitu vatni á Vestfjörðum. Samkvæmt gæða- og öryggisstjórnunarkerfum liggja fyrir stefnuskjöl, verklagsreglur og vinnulýsingar svo að starfsmenn hafi greiðan aðgang að upplýsingum um markmið og verklag í störfum sínum. Í þessum kerfum er einnig tekið á þjálfun starfsmanna, öryggi og skráningu óæskilegra atburða og meðhöndlun þeirra, ásamt mörgu fleiru. Orkubúið er með öryggisnefnd skipaða fjórum fulltrúum og einnig er starfandi umsjónarmaður öryggismála. 

Nánari umfjöllun um öryggismál Orkubús Vestfjarða má finna á vef Bæjarins besta.