10.07 2015

Lög nr. 40/2015 um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum

Lög nr. 40/2015 um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum

Alþingi samþykkti þann 30. júní sl. ný heildarlög um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum. Lögin leysa af hólmi eldri lög nr. 61/1992, um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi. Markmið með lagasetningunni er að tryggja öryggi og heilsu fólks, koma í veg fyrir eignatjón og draga úr mengun og skaða á umhverfinu.

Í hinum nýju lögum eru settar skýrari reglur en áður um meðferð elds á víðavangi og skyldu hvers og eins að gæta ýtrustu varkárni í meðferð elds. Sérstaklega er fjallað um sinubrennu og tiltekið að hún sé eingöngu heimil á lögbýlum þar sem stundaður er landbúnaður og einungis í rökstuddum tilgangi í jarðrækt eða búfjárrækt og þá samkvæmt skriflegu leyfi sýslumanns. Ákvæði um slíkar leyfisveitingar eru markvissari og strangari en samkvæmt eldri löggjöf og eftirlitshlutverk slökkviliðanna eflt. Heimilt verður að gera kröfu um vakt slökkviliðs ef ástæða þykir til og strangari ákvæði eru sett um bótaábyrgð. Þá er nýmæli að sveitarstjórnum er heimilt að afmarka svæði í brunavarnaáætlun þar sem óheimilt er að brenna sinu vegna þeirrar hættu sem af því getur stafað fyrir umhverfið, nálæg mannvirki eða starfsemi á svæðinu.

Hér er hlekkur á lögin á vef Stjórnartíðinda.