28.10 2015

Norrænt samstarf um visthönnun og orkumerkingar

Norrænt samstarf um visthönnun og orkumerkingar

Meðal verkefna Mannvirkjastofnunar eru visthönnun vöru og orkumerkingar. Kröfur um visthönnun vöru og orkumerkingar byggjast á samræmdri löggjöf á Evrópska efnahagssvæðinu sem innleiddar eru hér á landi með lögum nr. 42/2009 um visthönnun vöru sem tengist orkunotkun og lögum nr. 72/1994 um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi vörur sem tengjast orkunotkun og reglugerðum sem á þessum lögum byggja. Hluti af þessu verkefni Mannvirkjastofnunar er þátttaka í Nordsyn sem er samstarfsverkefni stjórnvalda á Norðurlöndunum, styrkt að Norræna ráðherraráðinu.

Í veftímaritinu GREEN GROWTH sem gefið er út af Norrænu ráðherranefndinni er nýleg grein eftir Pál Tómas Finnsson um kosti norrænnar samvinnu í eftirliti á markaði og visthönnun vöru. Í greininni kemur meðal annars fram að markmið Evrópusambandsins er að auka orkunýtni um 20% fyrir árið 2020. Orkumerkingar og visthönnun vöru eru mikilvæg skref í áttina að þessu markmiði en gert er ráð fyrir að allt að helmingur markmiðsins náist með betri orkunýtni vegna þessara aðgerða. Norðurlöndin hafa frá árinu 2013 unnið í sameiningu að því að ná þessum markmiðum með þátttöku í Nordsyn verkefninu.

Hægt er að nálgast greinina í heild sinni á vef GREEN GROWTH.