25.01 2016

Skoðun á ástandi orkumerkinga

Skoðun á ástandi orkumerkinga

Með lögum nr. 72/1994 um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi vörur sem tengjast orkunotkun er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2010/30/ESB frá 19. maí 2010 um merkingar og staðlaðar vörulýsingar á orkutengdum vörum er greina frá notkun þeirra á orku og öðrum aðföngum. Lögin og tilskipunin eru rammi um kröfur sem gerðar eru til einstakra vörutegunda, s.s. ýmissa gerða heimilistækja, og settar eru fram í sérstökum reglugerðum fyrir hvern vöruflokk.
 Markmiðið er að tryggja að neytendur hafi greiðan aðgang að samræmdum upplýsingum um orkunotkun vara sem tengjast orkunotkun („energy-related products“), verði þannig betur upplýstir og velji því frekar vörur sem hafa góða orkunýtni. Þannig sé stuðlað að því að orka sé notuð með skynsamlegum og hagkvæmum hætti, náð sé fram orkusparnaði og dregið úr umhverfisáhrifum.

Lögin gera þeim sem bjóða fram vörur sem falla undir þessa löggjöf skylt að láta neytendum í té og vekja athygli þeirra á upplýsingum um orkunotkun, orkunýtni, hávaða og annað er varðar rekstur þeirra og kveðið er á um í reglugerð fyrir viðkomandi vöruflokk. 

Undir lok síðasta árs lét Mannvirkjastofnun framkvæma skoðun á ástandi orkumerkinga nokkurra gerða af „hvítavöru“ til heimilisnota, þ.e. kælitækjum, með og án frystis, uppþvottavélum, þvottavélum og þurrkurum. Skoðanir voru framkvæmdar af BSI á Íslandi ehf sem er faggilt skoðunarstofa á sviði markaðseftirlits. Í skoðununum var skoðað og skráð ástand orkumerkinga tæplega 900 mismunandi gerða „hvítavöru“ af fyrrgreindum gerðum. 62% tækjanna reyndust hafa fullnægjandi orkumerkingar, í 27% tilfella þóttu merkingarnar ekki fullnægjandi, en í þeim tilvikum var oftast um að ræða smávægilegar athugasemdir s.s. við staðsetningu merkimiða. Einungis 11% tækjanna reyndust reyndust ekki hafa nauðsynlegar orkumerkingar.