27.01 2016

Brunatjón 2015

Brunatjón 2015

Mannvirkjastofnun hefur tekið saman yfirlit yfir brunatjón ársins 2015 upp úr gögnum frá tryggingarfélögunum og kynnti Guðmundur Gunnarsson yfirverkfræðingur það á opnum fundi hjá Brunatæknifélagi Íslands nú í morgun. Bætt brunatjón ársins voru 1312 milljónir sem er talsvert undir meðaltjónum liðinna áratuga sem eru 2106 milljónir og veruleg lækkun frá árinu 2014 en þá voru tjónin 3091 milljónir en þar munaði mest um brunann í Skeifunni sem stóð fyrir um 60% allra tjóna það ár. Mesta tjón liðins árs var á Selfossi þegar Plastiðjan brann 23. nóvember en annar stórbruni varð í sömu götu 7. júní þegar bruni varð á geymslusvæði Sets enda þótt tjónið í þeim bruna hafi verið mun minna.

Ekkert manntjón varð í bruna á liðnu ári og er það sjötta árið frá aldamótum sem það gerist. Sé horft til liðinna áratuga farast að meðaltali 1.7 einstaklingar í brunum hér á landi en alls hafa 63 misst lífið í brunum í byggingum frá árinu 1979 en séu þeir taldir með sem farist hafa í öðrum brunum eru þeir alls 76. Sjá má að 85% þeirra sem farast í brunum á þessu tímabili eru á einkaheimilum en sjúkrastofnanir og þ.h. eru með nær 8% allra banaslysanna. Karlmenn eru 78% þeirra sem farast en konur eru um 22% og er meðalaldur þeirra 57 ára á móti 40 ára meðalaldri karla. Alls hafa 1724 farist í öllum slysum á Íslandi frá árinu 1979 og eru þeir sem farast í brunum um 3.7% þeirra. Fjöldi banaslysa á þessu tímabili hefur lækkað úr 38.1 niður í 7.2 á hverja 100 þús. íbúa og svarar það til þess að 102 fleiri hefðu farist í slysum í fyrra væri slysatíðnin sú sama og á árunum um 1980. Hér munar mestu um sjóslysin en annars er það yfirleitt umferðin sem kostar flest mannslíf ár hvert.

Samkvæmt skráningum slökkviliðanna í útkallsgrunn voru útköll slökkviliðanna á liðnu ári alls 1345 hefur þeim farið fækkandi undanfarin ár. Af útköllunum voru alls 158 í eld í byggingum og í eld utan bygginga (gróðurelda, bifreiðar, gáma og fl.) alls 324. Af öðrum lögbundnum verkefnum slökkviliðanna voru útköll í umferðarslys alls 88 og sami fjöldi í leka af hættulegum efnum. Hafa ber í huga að ekki skrá öll slökkvilið útköll sín í grunninn þannig að ætla má að útköllin séu talsvert fleiri.

Algengustu orsakir elds í byggingum samkvæmt þessari skráningu eru út frá rafmagni eða um 32% (aðallega röng notkun og um 54% eru frá eldavélum) og íkveikjur eru um 20%. Þegar horft er til bruna utan bygginga eru brunar í gróðri nær 27% allra bruna og af þeim stafa 84% af íkveikjum en í gámum og ruslatunnum sem eru nær 25% allra bruna eru 87% íkveikjur. Brunar í bílum og ökutækjum voru alls 49 eða um 15% bruna utan bygginga.

Fyrirlestur Guðmundar má finna hér.