01.02 2016

Hættuleg svifbretti

Hættuleg svifbretti

Mannvirkjastofnun vekur athygli á að á undanförnum mánuðum hefur fundist á markaði víða í heiminum, m.a. í Evrópu, Bandaríkjunum og Ástralíu, mikill fjöldi svokallaðra svifbretta sem veruleg bruna- og slysahætta getur stafað af. Vitað er um mörg tilvik þar sem rafhlaða í svifbretti springur, það kviknar í brettinu og töluverður eldur hlýst af - þetta hefur m.a. leitt til alvarlegra húsbruna. 

Í Bretlandi hefur markaðssetning á annað hundrað þúsund eintaka verið stöðvuð af opinberum aðilum og jafnframt hafa stórar verslunarkeðjur þar í landi hætt allri sölu á svona búnaði þar til gengið hefur verið úr skugga um að hann uppfylli öryggiskröfur.

Á þessari stundu er Mannvirkjastofnun ekki kunnugt um verslanir sem selja svifbretti hér á landi en telur víst að nokkur fjöldi slíkra tækja hafi verið keyptur hingað til lands í gegnum netverslanir. 

Helstu ágallar sem fundist hafa:

·  Enginn búnaður („cut-off“) er til staðar sem stöðvar hleðslutækið í að reyna að hlaða fullhlaðnar rafhlöður, það getur leitt til þess að rafhlöðurnar (lithium rafhlöður) springi og kveiki í brettunum.
·  Kviknað getur í brettum þegar orkunotkun þeirra eykst skyndilega, t.d. þegar einhver fyrirstaða verður á vegi þeirra.
·  Ytra byrði brettanna, oftast plast, er ekki úr tregbrennanlegu efni og brennur því auðveldlega sem eykur líkur á alvarlegum eldsvoðum.
·  Einangrun hleðslutækja (spenna) er ófullnægjandi.
·  Aðtaugar (snúrur) eru of grannar.
·  Merkingum, bæði upprunamerkingum og raffræðilegum merkingum, er verulega áfátt eða þær vantar.    

Hvernig þekkja má ágalla:

Hvort eitthvað af ofangreindu getur átt við í einstökum tilvikum er mjög örðugt að sjá með sjónskoðun, nema merkingar. Reynslan frá Bretlandi sýnir að Í mjög mörgum tilfellum, þegar um er að ræða bretti sem hætta getur stafað af, er merkingum þeirra verulega ábótavant, oft eru einhverjar merkingar á umbúðum en engar á brettinu sjálfu þar sem þær eiga að vera reglum samkvæmt. Meðal merkinga sem oft vantar eru upprunamerkingar, þ.e. nafn eða vörumerki framleiðanda og gerðarmerking. Vanti merkingar á brettið sjálft er það ekki reglum samkvæmt og getur bent til þess að fleiru sé ábótavant. Þess ber þó að geta að í einhverjum tilfellum hafa fundist hættuleg bretti þar sem merkingar eru með ágætum.

Hjálagt er mynd af umbúðum sem margar gerðir hættulegra svifbretta hafa fundist í í Bretlandi. 

Viðbrögð eigenda:

Mannvirkjastofnun beinir því til eigenda svifbretta að hætta allri notkun þeirra þegar í stað leiki einhver vafi á að þau uppfylli öryggiskröfur. Stofnunin beinir því til þeirra að skilja þau aldrei eftir í hleðslu án eftirlits og gæta eins og kostur er að því að keyra ekki þar sem fyrirstaða er. Einnig að skoða merkingar og hafa samband við söluaðilann og fá upplýsingar um öryggi viðkomandi bretta. 

Frekari upplýsingar:

Frétt á vef ITV í Bretlandi: http://www.itv.com/news/london/2015-12-05/thinking-of-buying-a-hoverboard-this-christmas-you-better-read-this/ .
Fréttir á vef BBC í Bretlandi: http://www.bbc.com/news/business-34975178 og http://www.bbc.com/news/business-35109728 .
Af vef slökkviliðs Lundúna („London Fire Brigade“): http://www.london-fire.gov.uk/news/LatestNewsReleases_BrigadeissueshoverboardsafetywarningonBacktotheFutureDay.asp oghttp://www.london-fire.gov.uk/news/LatestNewsReleases_AvoidChristmashoverboardhorrorsaysBrigade.asp .
Þáttur úr danska sjónvarpinu (DR1): https://www.dr.dk/tv/se/kontant/kontant-2016-01-28#!/