08.04 2016

Úttektir á slökkviliðum 2013-2015

Úttektir á slökkviliðum 2013-2015

Slökkvilið sveitarfélaganna eru lykilstofnanir til að tryggja öryggi borgaranna. Slökkviliðin sinna forvarnastarfi og stuðla að því m.a. með úttektum að eigendur og umsjónarmenn mannvirkja og lóða haldi brunavörnum í lagi svo borgararnir búi við það öryggi sem löggjöfin gerir kröfu um. Slökkviliðin eru einnig sá aðili sem kemur okkur til bjargar þegar slys verða. Þau er fyrsti viðbragðsaðili þegar eldur verður laus, þegar fólk situr fastklemmt í bíl eftir slys eða þegar mengunarslys verða. Oft er sagt að slökkviliðsmenn hlaupi inn í aðstæður sem aðrir flýja. Mikilvægi þessara starfa er óumdeilt. Nauðsynlegt er að þeim sem sinna þessum störfum sé tryggt eins mikið öryggi við sína vinnu og kostur er.

Mannvirkjastofnun hefur á árunum 2013-2015 gert úttekt á þeim þáttum í starfssemi slökkviliða sem heyrir undir stofnunina. Úttektin er gerð á grundvelli staðlaðrar skoðunarhandbókar sem byggir á þeim atriðum sem tilgreind eru í lögum og reglugerðum um starfsemi slökkviliða og brunavarnaáætlana þar sem þær liggja fyrir. Tekið er á öllum þáttum sem fram koma í regluverkinu og var bæði fyrirbyggjandi starf og útkallsstyrkur slökkviliðanna skoðaður.

Niðurstöður úttektarinnar byggja á staðfestum svörum slökkviliðsstjóra við þeim atriðum sem talin eru upp í gátlistum sem notaðir eru við úttektina.

Niðurstöður úttektarinnar sýna að mörg sveitarfélög vinna vel að brunavörnum, en talsvert vantar upp á að öll sveitarfélög uppfylli allar þær kröfur sem gerðar eru í lögum og reglugerðum.

Á svörum slökkviliðsstjóra við þeim spurningum sem lagðar eru fram í úttektunum kemur fram að innan við helmingur slökkviliðanna er með gilda brunavarnaáætlun eins og lög gera ráð fyrir. Markmið brunavarnaáætlunar er að tryggja að slökkvilið sé þannig mannað, skipulagt, útbúið tækjum, menntað og þjálfað að það ráði við þau verkefni sem því eru falin í lögum. Jafnframt er eitt af meginmarkmiðunum með brunavarnaáætlun að sveitarfélög skilgreini hvernig þau nái að uppfylla það þjónustustig sem slökkviliðið á að veita borgurunum.

Talsverður misbrestur er á að ákvæðum laga um að öryggi slökkviliðsmanna sé tryggt sé fylgt, þetta á til dæmis við um kröfur um læknisskoðanir og þrek- og styrktarpróf og einungis helmingur slökkviliðsstjóra sinnir þjálfun slökkviliðsmanna eins og lágmarkskröfur laga og reglugerða gera ráð fyrir. Einungis 10 % svara því að búnaður til að verja slökkviliðsmenn gegn áhrifum hættulegra efna sé í lagi og búnaði til björgunar á fastklemmdu fólki er víða ekki viðhaldið eins og til er ætlast.

Slík úttekt á slökkviliðum hefur ekki verið gerð áður en verði hún gerð á 2-3 ára fresti til framtíðar mun það gefa góða mynd að hversu vel tekst til að bæta úr þeim ágöllum sem úttektin leiðir í ljós.

Skýrsla um úttektir á slökkviliðum 2013-2015.