14.10 2016

Bleikur dagur hjá starfsmönnum Mannvirkjastofnunar

Bleikur dagur hjá starfsmönnum Mannvirkjastofnunar

Í dag föstudaginn 14. október héldu starfsmenn Mannvirkjastofnunar Bleika daginn hátíðlegan. Með þessu vilja þeir vekja athygli á árverkniátaki Bleiku slaufunnar og baráttunni gegn krabbameinum hjá konum. Bleika slaufan, átaksverkefni Krabbameinsfélagsins gegn krabbameinum í konum, er tileinkað brjóstakrabbameini í ár.

Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein íslenskra kvenna og greinist kona með brjóstakrabbamein á um 40 klukkustunda fresti árið um kring. Margt jákvætt hefur áunnist og geta nú 90% kvenna sem greinast með brjóstakrabbamein vænst þess að lifa lengur en 5 ár sem er mjög góður árangur á heimsvísu. Við fögnum því að um 3.000 konur eru á lífi í dag sem greinst hafa með brjóstakrabbamein en því miður missum við um 40 konur á ári úr sjúkdómnum.