16.11 2016

Heimilin efla varnir gegn eldsvoðum jafnt og þétt

Heimilin efla varnir gegn eldsvoðum jafnt og þétt

Íslendingar auka eldvarnir á heimilum sínum jafnt og þétt samkvæmt rannsóknum sem Gallup hefur gert fyrir Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og Eldvarnabandalagið á undanförnum tíu árum. Nýjasta rannsókn Gallup sýnir að nú eru allt í senn reykskynjarar, eldvarnateppi og slökkvitæki á yfir helmingi íslenskra heimila í fyrsta sinn frá því mælingar hófust. Heimilum sem eiga eldvarnateppi fjölgaði um fimm prósentustig frá 2014 og alls um ríflega átta prósentustig síðan 2006. Slökkvitæki var á ríflega 61 prósent heimila 2006 en rúmlega 72 prósent nú. Þá fjölgar sífellt heimilum með þrjá reykskynjara eða fleiri.

- Þótt eldvörnum sé sannarlega verulega ábótavant hjá mörgum er þetta afar ánægjuleg þróun og jákvætt að fá svona niðurstöðu nú þegar við erum að hefja árlegt Eldvarnaátak slökkviliðsmanna í grunnskólum um allt land. Þetta styrkir okkur bara í þeirri trú að eldvarnafræðsla okkar, Eldvarnabandalagsins og fleiri skilar árangri, segir Valdimar Leó Friðriksson, framkvæmdastjóri Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS). Nýjasta rannsókn Gallup var gerð fyrir LSS og Eldvarnabandalagið í september og október síðastliðnum en Gallup hefur kannað ástand eldvarna á heimilum fyrir þessa aðila á tveggja ára fresti frá 2006. Þátttakendur nú voru 1.418 og þátttökuhlutfallið 59,1 prósent.

Helstu niðurstöður könnunar Gallup eru þessar:

  • Á helmingi heimila eru allt í senn reykskynjarar, slökkvitæki og eldvarnateppi (43,3 prósent 2012).
  • Á 28 prósent heimila er enginn eða aðeins einn reykskynjari (38,4 prósent 2006).
  • Heimilum með fjóra reykskynjara eða fleiri hefur á sama tíma fjölgað úr 21,5 prósent árið 2006 í 31,9 prósent nú. Hér er um 50 prósent fjölgun að ræða á tíu árum.
  • Slökkvitæki eru á um 72 prósent heimila.
  • Eldvarnateppi er á nær 65 prósent heimila og fjölgaði um fimm prósentustig frá síðustu könnun árið 2014.
  • Eldvarnir eru sem fyrr mun lakari í leiguhúsnæði en hjá þeim sem búa í eigin húsnæði. Ungt fólk er jafnframt berskjaldaðra fyrir eldsvoðum en aðrir.
  • Eldvarnir eru að jafnaði öflugastar hjá þeim sem búa í einbýli.

Eldvarnaátakið hefst fimmtudaginn 17. nóvember og stendur fram í byrjun aðventu. Slökkviliðsmenn heimsækja þá nemendur í 3. bekk grunnskóla um allt land og fræða þá um eldvarnir. Helstu styrktaraðilar Eldvarnaátaksins eru Mannvirkjastofnun, 112, Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, TM og slökkviliðin í landinu.

Nánari niðurstöður könnunar Gallups má skoða á heimasíðu Eldvarnarbandalagsins, www.eldvarnabandalagid.is/.