22.11 2016

Orkumerkingar hjólbarða

Orkumerkingar hjólbarða

Þar sem tími dekkjaskipta er í gangi  er rétt að árétta að allir hjólbarðar sem boðnir eru til sölu eiga að vera merktir á viðeigandi hátt. Merkingarnar eiga að vera á áberandi límmiða sem festur er á hjólbarðana eða sýnilegur fyrir kaupanda á sölustað.  Einnig eiga merkingarnar að vera á reikningnum eða fylgja við kaupin á dekkjunum.

Reglur um merkingar hjólbarða gera þá kröfu til söluaðila hjólbarða að þeir upplýsi neytendur um um eldsneytisnýtni (snúningsmótstaða) hjólbarða, veggrip í bleytu og snúningshávaða (sem frávik frá viðmiðunarmörkum).

Markmið er að tryggja að neytendur hafi greiðan aðgang að samræmdum upplýsingum um ofangreind atriði og að þeir verði betur upplýstir og velji frekar vörur sem ná fram frekar orkusparnaði og dragi úr umhverfisáhrifum. Mannvirkjastofnun gerir reglulega kannanir um hjólbarða og mun halda því áfram. 

Nánar um merkingarnar:

Eldsneytisnýtni: Snúningsmóttstaða er lykilþáttur þegar orkunotkun hjólbarða er mæld. Mikil snúningsmótstaða í akstri hefur bein áhrif á eldsneytisneyslu bílsins. Hjólbarðar sem eru merktir A veita minnstu mótspyrnu en G þá mestu.

Veggrip í bleytu: Gefin er einkunn frá A-G þar sem A er besta veggripið en G það lakasta.

Snúningshávaði: Snúningshávaði (veghljóð) er mældur í desibelum á þriggja strika skala sem miðast við leyfileg viðmið um snúningshávaða frá hjólbörðum.

1 svart strik: Hljóðlát, meira en 3 dB minni hljóðstyrkur en leyfileg viðmið (69 dB eða minna).

2 svört strik: Meðal, milli leyfilegra viðmiða og 3 dB undir þeim (72 db).

3 svört strik: Hávær, fer fyrir yfir leyfileg viðmið (72 dB).