30.06 2017

Ástand orkumerkinga hjólbarða

Ástand orkumerkinga hjólbarða

Í maí 2017 lét Mannvirkjastofnun framkvæma skoðun á ástandi orkumerkinga hjólbarða í flokkum C1, C2 og C3. Skoðanir voru framkvæmdar af BSI á Íslandi ehf sem er faggilt skoðunarstofa á sviði markaðseftirlits.

Í skoðun á hjólbörðum í þessum flokkum voru skoðað og skráð ástand orkumerkinga hjá 16 aðilum víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu. Ástandið var almennt gott en yfir heildina litið voru 83% hjólbarðanna með fullnægjandi orkumerkingar, í 1% tilfella þóttu merkingarnar ekki fullnægjandi. Í 16% tilfella reyndust hjólbarðarnir ekki hafa nauðsynlegar orkumerkingar. 

Lög nr. 72/1994 um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi vörur sem tengjast orkunotkun og reglugerð (ESB) nr. 1222/2009 um merkingar hjólbarða er varðar eldsneytisnýtingu og aðrar nauðsynlegar kennistærðir gera söluaðilum skylt að upplýsa neytendur. Markmiðið er að tryggja að neytendur hafi greiðan aðgang að samræmdum upplýsingum um eldsneytisnýtni og verði þannig betur upplýstir og velji því frekar hjólbarða sem hafa góða eldsneytisnýtni. Þannig sé stuðlað að því að eldsneyti sé notað með skynsamlegum og hagkvæmum hætti, að náð sé fram sparnaði á eldsneyti og dregið úr umhverfisáhrifum.

Lögin gera þeim sem bjóða fram hjólbarða skylt að gefa eftirfarandi upplýsingar á merkimiðanum:

  • Eldsneytisnýtni á kvarðanum A til G

  • Veggrip í bleytu á kvarðanum A til G

  • Ytri snúningshávaða gefinn upp í dB