12.09 2017

Evrópsk markaðskönnun á LED-kösturum

Evrópsk markaðskönnun á LED-kösturum

Stjórnvöld frá 17 löndum á Evrópska efnahagssvæðinu og í Sviss stóðu nýlega að sameiginlegri markaðskönnun á LED-kösturum þar sem kannað var hvort þeir uppfylltu kröfur um rafmagnsöryggi og rafsegulsamhæfi. Niðurstaðan varð sú að 47% af þeim kösturum sem voru prófaðir voru afturkallaðir af evrópskum markaði.

Að framkvæmd verkefnisins komu 20 evrópskar stofnanir sem sjá um markaðseftirlit m.t.t. tveggja Evróputilskipana, tilskipunar um rafsegulsamhæfi, „EMC-tilskipunarinnar“ og tilskipunar um öryggi raffanga, „lágspennutilskipunarinnar“. Mannvirkjastofnun tók þátt í verkefninu fyrir Íslands hönd.

„Ef litið er til þess að þetta verkefni er það fyrsta þar sem markaðskönnun var gerð sem kannar samræmi við tvær mismunandi tilskipanir hefur það heppnast mjög vel. Okkur hefur tekist að fjarlægja mikið af LED-kösturum sem voru hættulegir og/eða uppfylltu ekki kröfur um rafsegulsamhæfi, af evrópskum markaði og þar með stuðlað að bættu öryggi í Evrópu“ sagði Hannu Mattila frá markaðseftirlitsstofnuninni Tukes í Finnlandi en hann var verkefnastjóri verkefnisins. „Niðurstöðurnar voru þær að aðeins tveir af öllum prófuðum LED-kösturum uppfylltu allar tæknilegar kröfur sem og formkröfur sem settar eru fram í tilskipununum. Það gefur okkur tilefni til þess að hafa áhyggjur af núverandi stöðu, en við vonumst eftir því að þetta ástand batni í framhaldinu“.

Niðurstöður könnunarinnar voru þær að 47% af prófuðum LED-kösturum þurfti að afturkalla af markaði í Evrópu sem sýnir að markaðsaðilar hafa ekki haft Evrópureglur í huga við markaðssetningu þessara raffanga. Í einungis 10% tilvika var ekki þörf á að grípa til takmarkana á markaðssetningu. 

Tæknilegar kröfur

Einungis fimm LED-kastarar uppfylltu allar tæknilegar kröfur sem metnar voru. 87% af prófuðum kösturum uppfylltu ekki tæknilegar kröfur um rafmagnsöryggi og 71% voru með galla sem ógnað gátu öryggi notenda. Samtals voru prófaðir 87 kastarar með tilliti til rafmagnsöryggis.

LED-kastararnir voru einnig prófaðir m.t.t. rafsegulsamhæfis. Meira en helmingur þeirra eða 54% stóðust ekki kröfur. Algengastar voru leiðandi rafsegultruflanir en það þýðir að kastararnir gátu haft áhrif á önnur rafföng sem voru tengd sama rafkerfi eða voru staðsett nærri þeim. Samtals voru 85 kastarar prófaðir með tilliti til rafsegulsamhæfis.

Formkröfur

Áður en söluaðili eða innflytjandi raffangs getur sett það á markað á Evrópska efnahagssvæðinu þarf að uppfylla ýmsar formkröfur. Í verkefninu voru ESB-samræmisyfirlýsingar, CE-merkingar, rekjanleikakröfur og tæknigögn metin. Meira en helmingur kastaranna, eða 54%, uppfyllti ekki þessar kröfur. Allir kastararnir sem voru prófaðir utan eins, voru með CE merkingu og í 17% tilvika barst ekki fullnægjandi samræmisyfirlýsing.

Flestir LED-kastararnir voru framleiddir í Kína, eða 75%. Í 20% tilfella var upprunalands ekki getið og einungis 5% kastaranna voru framleiddir í Evrópu. Í niðurstöðum verkefnisins kemur fram sterk fylgni milli þess að upprunalands var ekki getið og að merkingar og gögn vantaði. Aðeins einn kastari sem var frá óþekktu upprunalandi uppfyllti formkröfur. 

Verkefnið

Þetta sameiginlega verkefni, sem bar heitið JA2015-EMCLVD, miðaði að því að kanna og bæta ástand nýrrar tegundar raffanga, LED-kastara, með tilliti til rafsegulsamhæfis og rafmagnsöryggis. LED-kastarar byggja á nýrri tækni og hafa dreifst hratt og víða á evrópskum markaði. Í verkefninu var lögð áhersla á að skoða LED-kastara sem gætu verið notaðir af almennum neytendum. Alls voru 90 kastarar prófaðir í verkefninu.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins styrkti verkefnið að hluta en 20 stofnanir frá alls 17 löndum í Evrópu tóku þátt í því.