01.11 2017

Fundur Mannvirkjastofnunar og byggingarfulltrúa

Fundur Mannvirkjastofnunar og byggingarfulltrúa

26. og 27. október 2017 fór fram í Reykjavík árlegur haustfundur Mannvirkjastofnunar og byggingarfulltrúa. Björn Karlsson forstjóri Mannvirkjastofnunar setti fundinn og bauð fundargesti velkomna. Mikill áhugi var á fundinum og sóttu hann hartnær 80 gestir sem hlýddu á fjölmörg áhugaverð erindi.

Setning fundar

Björn Karlsson forstjóri Mannvirkjastofnunar 

Í opnunarávarpi sínu bauð Björn fundargesti velkomna, kynnti dagskrá fundarins og bað að því loknu fundargesti um að standa upp gera stuttlega grein fyrir sér.

Innflutt byggingarvara, byggingarhlutar og hús

Benedikt Jónsson og Inga Þórey Óskarsdóttir frá MVS 

Benedikt fór yfir lög og reglugerðir sem gilda um byggingarvörur ásamt skilgreiningu á því hvað telst vera byggingarvara. Hann kynnti einnig grunnkröfur til byggingarvöru og kröfur um CE merkingu, þýðingu hennar, hvaða kröfur gilda um vörur sem ekki eru CE merktar ásamt því að fjalla um grundvallaratriði varðandi réttindi fagaðila og hverjar skyldur þeirra og ábyrgð er varðandi staðfestingu eiginleika og efnisgæða byggingarvöru.

Inga Þórey vitnaði í nokkur dæmi um hvernig staðið var að því að leggja fram fullnægjandi gögn vegna staðfestingar á eiginleikum og nothæfi byggingarvöru og fór yfir réttindi hlutaðeigandi aðila. Hún fjallaði einnig um stöðuhús og gámahús, skilgreiningu þeirra gagnvart regluverkinu  og nefndi dæmi um afgreiðslu slíkra mála hjá leyfisveitanda.

Stöðuleyfi – leiðbeiningar

Ingibjörg Halldórsdóttir Land lögmenn

Í erindi sínu fjallaði Ingibjörg um leiðbeiningar um stöðuleyfi, hvað fellur undir stöðuleyfi, útgáfu þess og gildistíma. Einnig talaði hún um gjaldtöku vegna stöðuleyfa, öryggi og hollustuhætti tengd slíkum leyfisveitingum og heimildir byggingarfulltrúa til að fjarlægja lausafjármuni.

Lagaleg ábyrgð á göllum af völdum myglu

Ingibjörg Halldórsdóttir Land lögmenn 

Ingibjörg fór yfir helstu atriði sem tengjast ábyrgð þegar upp koma tjón vegna raka og myglu, m.a. ábyrgðar seljanda fasteignar, fasteignasala og leigusala. Hún fjallaði einnig um muninn á nýbyggingum og eldra húsnæði í þessu samhengi. Að lokum talaði Ingibjörg um fasteignatryggingu og húseigendatryggingu varðandi bótaskyldu tjóna af völdum raka og myglu. 

Hlutverk Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands

Ólafur Wallevik Forstöðumaður Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins 

Ólafur fjallaði um hlutverk og starfsemi Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins. Hann talaði um ástand bygginga og annara innviða á Íslandi almennt, m.a. með tilliti til vandamála tengdum raka og myglu og hvert framlag Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins til úrlausna þessara vandamála getur verið.  Ólafur benti í því sambandi á auknar rannsóknir, útgáfu fræðsluefnis og leiðbeininga og mikilvægi þess að stuðla að aukinni þekkingu m.a. með því að standa fyrir námskeiðum fyrir hagsmunaaðila. 

Brunaeiginleikar byggingarvöru hlutverk MVS

Guðmundur Gunnarsson frá MVS 

Guðmundur fór yfir hlutverk Mannvirkjastofnunar varðandi brunaeiginleika byggingarvöru. Hann nefndi nokkur dæmi um fyrirspurnir sem borist hafa stofnuninni vegna mannvirkja eða byggingarhluta, ekki síst auknum fjölda fyrirspurna vegna innfluttra húsa sem geta verið af margvíslegum toga, t.a.m. verið stöðuhýsi á hjólum, kúluhús úr plasti, tjöld o.fl. Að lokum talaði Guðmundur um eldvarnahurðir og -glugga ásamt stöðlum sem um þau gilda. 

Byggingargátt

Guðmundur Kjærnested frá Mannvirkjastofnun, Arnar Hannesson frá Hugviti, Ólafur K Ragnarsson frá SHS, Jón Malmquist Guðmundsson og Skúli Lýðsson frá MVS 

Kynningin fjallaði um rafræna byggingargátt Mannvirkjastofnunar sem tekin verður í notkun í ársbyrjun ársins 2018.  Farið var yfir stöðu hennar en gáttin er nú tilbúin til  prufunotkunar og hafa verið gerðir samstarfssamningar við tvö sveitarfélög um að taka þátt í prófunarferlinu. Uppbygging gáttarinnar var kynnt og að lokum fór fram ýtarlegt sýnidæmi um hvernig ferli byggingarleyfisumsóknar getur verið í rauntíma, hlutverk hlutaðeigandi aðila útskýrð og hvaða notendastöðu þeir hafa innan gáttarinnar. 

Innleiðing á rafrænni stjórnsýslu byggingarfulltrúa í Vanta í Finnlandi

Pekka Virkamäki byggingarfulltrúi í Vanta 

Pekka Virkamäki byggingarfulltrúi í Vanta í Finnlandi kynnti reynslu sveitarfélagsins af innleiðingu og notkun rafrænnar stjórnsýslu í tengslum við byggingarleyfi, yfirferð hönnunargagna, framkvæmdir og úttektir. Hann benti á augljósa kosti fyrir alla hlutaðeigandi og nefndi dæmi um mikla hagræðingu fyrir einstaka aðila, s.s. eigendur, hönnuði og starfsfólk stjórnsýslunnar. Að lokum fjallaði hann stuttlega um þróun frekari lausna eins og rafræna yfirferð hönnunargagna í formi BIM líkana sem flýtt getur enn frekar fyrir afgreiðslu byggingarleyfisumsókna og gert hana skilvirkari og vandaðri. 

Leiðbeinandi hlutverk MVS

Ásta Sóley Sigurðardóttir frá MVS 

Erindi Ástu Sóleyjar hófst á yfirliti yfir samsetningu stjórnsýslu mannvirkjamála, leiðbeinandi hlutverk Mannvirkjastofnunar og stjórnsýslulegt hlutverk byggingarfulltrúa. Hún talaði um hvað leiðir mál ættu að fara ef upp kemur ágreiningur um stjórnsýslu byggingarfulltrúa í einstökum málum ásamt íhlutunarrétti Mannvirkjastofnunar. Ásta benti einnig á margvíslegar leiðbeiningar fyrir byggingarfulltrúa sem finna má á vef Mannvirkjastofnunar. Að lokum  fór hún yfir nokkur dæmi til skýringar.  

Mannvirkjastofnun  þakkar öllum fyrirlesurum fyrir sitt framlag og þeim sem sóttu fundinn kærlega fyrir komuna. Við vonum að fundurinn hafi verið fræðandi og hagnýtur fyrir þá sem tengjast málaflokknum ásamt því að stuðla að frekari umræðu um málefni, samskipti og starfsumhverfi byggingarfulltrúa og Mannvirkjastofnunar. Erindin frá fundinum eru aðgengileg hér á vef Mannvirkjastofnunar.