21.03 2018

Skagafjörður eflir eldvarnir á heimilum og vinnustöðum

Skagafjörður eflir eldvarnir á heimilum og vinnustöðum

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur gert samkomulag við Eldvarnabandalagið sem Mannvirkjastofnun er aðili að, um að efla eldvarnir á heimilum starfsmanna og í stofnunum sveitarfélagsins. Samstarfið felur í sér að sveitarfélagið innleiðir eigið eldvarnaeftirlit í stofnunum sínum í haust samkvæmt leiðbeiningum, gátlistum og öðrum gögnum sem Eldvarnabandalagið hefur gefið út. Jafnframt innleiðir Skagafjörður verklagsreglur Eldvarnabandalagsins um varúðarráðstafanir vegna logavinnu.

Áður hafa Akranes, Húnaþing vestra, Akureyri, Fjarðabyggð, Brunavarnir Austurlands, Vestmannaeyjabær og Dalvíkurbyggð innleitt eigið eldvarnaeftirlit í samstarfi við Eldvarnabandalagið. Samkvæmt sameiginlegu árangursmati fyrir verkefnin á Akureyri og í Fjarðabyggð er ótvíræður árangur af verkefninu.

Eldvarnabandalagið hefur útbúið leiðbeiningar og önnur gögn vegna eigin eldvarnaeftirlits fyrirtækja og stofnana og verða þau höfð til hliðsjónar í samstarfinu. Þjálfaðir verða eldvarnafulltrúar sem annast mánaðarlegt og árlegt eftirlit með eldvörnum í stofnunum sveitarfélagsins samkvæmt gátlistum Eldvarnabandalagsins frá og með 1. október næstkomandi.

Þá fá allir starfsmenn sveitarfélagsins fræðslu um eldvarnir á vinnustaðnum og heima fyrir og verður þeim afhent handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins. Eldvarnabandalagið leggur til allt efni og ráðgjöf án endurgjalds. Brunavarnir Skagafjarðar munu annast fræðslu fyrir eldvarnafulltrúa og annað starfsfólk.

Ásta Björg Pálmadóttir, sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar, segist fagna samstarfinu við Eldvarnabandalagið.

– Önnur sveitarfélög hafa mjög jákvæða reynslu af sambærilegum verkefnum og ég er sannfærð um að þetta samstarf muni stuðla að auknum eldvörnum á vinnustöðum sveitarfélagsins og heimilum starfsfólks, segir Ásta Björg.

Eldvarnabandalagið er samstarfsvettvangur um auknar eldvarnir á heimilum og vinnustöðum. Aðild að því eiga: Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, TM hf., Vátryggingafélag Íslands hf. og Vörður tryggingar hf.