15.06 2018

Markaðskönnun á orkumerkingum hjólbarða

Markaðskönnun á orkumerkingum hjólbarða

Þar sem tími dekkjaskipta er nýliðinn er rétt að árétta að allir hjólbarðar sem boðnir eru til sölu eiga að vera merktir á viðeigandi hátt. Merkingarnar eiga að vera á áberandi límmiða sem festur er á hjólbarðana eða sýnilegur fyrir kaupanda á sölustað.  Einnig eiga merkingarnar að vera á reikningnum eða fylgja við kaupin á dekkjunum. 

Í maí og júní síðastliðinn lét Mannvirkjastofnun framkvæma skoðun á ástandi orkumerkinga hjólbarða í flokkum C1, C2 og C3. Skoðanir voru framkvæmdar af BSI á Íslandi ehf. sem er faggilt skoðunarstofa á sviði markaðseftirlits. 

Í skoðun á hjólbörðum í þessum flokkum voru skoðað og skráð ástand orkumerkinga hjá 15 aðilum víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu. Ástandið var almennt gott en yfir heildina litið voru 79,3% hjólbarðanna með fullnægjandi orkumerkingar, í 1,7% tilfella þóttu merkingarnar ekki fullnægjandi. Í 19% tilfella reyndust hjólbarðarnir ekki hafa nauðsynlegar orkumerkingar. 

Reglur um merkingar hjólbarða gera þá kröfu til söluaðila hjólbarða að þeir upplýsi neytendur um eldsneytisnýtni (snúningsmótstaða) hjólbarða á kvarðanum A til G, veggrip í bleytu á kvarðanum A til G og snúningshávaða gefin upp í desebilum.

Markmið er að tryggja að neytendur hafi greiðan aðgang að samræmdum upplýsingum um ofangreind atriði og að þeir verði betur upplýstir og velji frekar vörur sem ná fram frekar orkusparnaði og dragi úr umhverfisáhrifum.

Hægt er að nálgast markaðskönnunina hér á vef Mannvirkjastofnunar.