10.07 2018

Breytingar á byggingarreglugerð

Breytingar á byggingarreglugerð

Reglugerð nr. 669/2018, til breytinga á byggingarreglugerð nr. 112/2012, hefur tekið gildi. Mannvirkjastofnun hefur uppfært samsetta byggingarreglugerð á vef stofnunarinnar.

Helstu breytingar eru þær að nú er skylt að gera ráð fyrir tengibúnaði vegna hleðslu rafbíla við hvert bílastæði í nýbyggingum og við endurbyggingu íbúðarhúsnæðis. Skyldan nær til þess að gert verði mögulegt að settur verði upp tengibúnaður við hvert stæði án verulegs kostnaðar – en ekki til þess að tengibúnaður sé settur upp við byggingu mannvirkis. Við hönnun bygginga til annarra nota en íbúðar skal nú gera grein fyrir fjölda bílastæða þar sem hleðsla rafbíla er möguleg í hönnunargögnum. 

Með breytingunni breytist skilgreining á smáhýsi þannig að bæði raf- og vatnslagnir geta nú verið í smáhýsi. Af breytingunni leiðir að nú er heimilt að byggja smáhýsi á lóð, án byggingarleyfis skv. g-lið 2.3.5. gr. bygg.rgl., með raf- og vatnslögnum en áður var slíkt smáhýsi byggingarleyfisskylt vegna lagnanna. Þá þarf ekki lengur staðfestingu Mannvirkjastofnunar á að rafvirkjameistari hafi tilkynnt um að raforkuvirki sé tilbúið til úttektar vegna öryggis- og lokaúttekta, heldur skal rafvirkjameistari sjálfur veita slíka staðfestingu. Auk framangreindra breytinga eru tilvísanir í staðla (ÍST EN 206, ÍST EN 13670, ÍST 151) og reglugerð um lyftur og öryggisíhluti fyrir lyftur uppfærðar með reglugerðinni.